„Viljum ekki fara í helgarfrí“

KR-ingar fagna eftir leikinn í kvöld.
KR-ingar fagna eftir leikinn í kvöld. mbl.is/Golli

„Við viljum berjast um titla í þeim keppnum sem við tökum þátt í og þá þurfum við að vinna leiki eins og þennan til að komast áfram,“ sagði Bjarni Guðjónsson, þjálfari KR, í viðtali við mbl.is. Hans menn lögðu FH 2:1 í 8-liða úrslitum bikarkeppni karla í kvöld og komumst þar með áfram í undanúrslit.

Bjarna fannst sigur Vesturbæinga sanngjarn. „Ég tek samt ekkert af FH. Þeir eru alltaf erfiðir og það er mjög erfitt að spila á móti þeim. Eru hættulegir þegar þeir sækja hratt á mann og eru mjög vel spilandi fótboltalið.“

KR-ingar leika þétt þessa dagana en liðið gerði 1:1 jafntefli við Cork frá Írlandi á fimmtudaginn í fyrri leik liðanna í 1. umferð forkeppni Evrópudeildar UEFA. Síðari leikurinn í því einvígi fer fram á fimmtudag á KR-vellinum. „Það er nóg að gera og svona viljum við hafa þetta. Við viljum ekki vera í helgarfríi og spila golf eða fagna afmæli úti í bæ. Við viljum vera að spila fótbolta og til þess erum við í þessu. Þetta er skemmtilegasti tími ársins til að spila fótbolta, mitt sumar, og það þarf bara að stýra álaginu á æfingum og það hefur gengið ágætlega.“

Þorsteinn Már Ragnarsson kom inn á hjá KR á 81. mínútu leiksins og deildi þá út miðum til leikmanna. Bjarni segir miðana til að einfalda málin. „Við breyttum aðeins leikkerfinu, fórum í 352. Í staðinn fyrir að kalla marga leikmenn til okkar er betra að henda út miðum til að þeir sjái bara hvaða stöðu hver og einn á að vera í og hvað þeir eiga að gera. Þetta er eitthvað sem þeir þekkja þannig að skilaboðin skila sér hraðar og betur á miðunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert