Atli Sveinn líklega búinn að leika sinn síðasta leik

Atli Sveinn Þórarinsson í leik með KA.
Atli Sveinn Þórarinsson í leik með KA. Ómar Óskarsson

Atli Sveinn Þórarinsson, fyrirliði KA í 1. deild karla í knattspyrnu, gæti þurft að leggja skóna á hilluna fyrr en áætlað var eftir að hafa fengið höfuðhögg gegn HK á dögunum, en þetta kemur fram á Fótbolta.net í dag.

Atli, sem er 35 ára gamall, hefur verið lykilmaður í liði KA frá því hann kom til félagsins frá Val fyrir tveimur árum.

Hann fékk þungt höfuðhögg gegn HK á dögunum, en hann sér ekki fram á að klára tímabilið með KA og gæti vel verið að þetta hafi verið hans síðasti leikur í boltanum.

„Þetta er leiðinlegt. Ég er orðinn 35 ára en auðvitað hefði maður viljað klára tímabilið með KA og koma okkur upp. Svona er þetta bara. Ég er búinn að prófa þannig sé flest allt á ferlinum,“ sagði Atli við Fótbolta.net.

„Það eru góðir menn sem koma í staðinn og það verður ekkert vandamál. Það er bikarslagur (gegn Fjölni) í kvöld og þó að það hefi ekki gengið eins vel og við vildum í deildinni þá erum við bara fimm stigum frá 2. sætinu og það er nægur tími til að vinna það upp," sagði Atli að lokum við Fótbolta.net.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert