Ekki langt frá Rosenborg

Pálmi Rafn Pálmason í leik KR og Cork City í …
Pálmi Rafn Pálmason í leik KR og Cork City í fyrstu umferðinni. mbl.is/Eggert

Það má með réttu kalla einvígi KR og Rosenborg í 2. umferð forkeppni Evrópudeildarinnar stórveldaslag en þetta eru sigursælustu lið Íslands og Noregs. Fyrri rimma liðanna fer fram í Frostaskjólinu í kvöld. Bæði lið eru á góðu róli. KR-ingar hafa verið á mikilli siglingu, eru stigi á eftir FH í öðru sæti í deildinni og eru komnir í undanúrslit í bikarnum og Rosenborg trónir á toppi norsku úrvalsdeildarinnar þar sem liðið hefur fimm stiga forskot.

Pálmi Rafn Pálmason, fyrirliði KR-inga, þekkir vel til Rosenborgar-liðsins eftir að hafa spilað í Noregi í mörg ár og því var upplagt að heyra hljóðið í Húsvíkingnum öfluga fyrir leikinn í kvöld.

KR er ekki með lakara lið en Lilleström

„Það er mikill spenningur í mér fyrir þessa leiki og ég vona svo sannarlega að við náum að stríða Rosenborg, ná í góð úrslit á heimavelli þannig að útileikurinn geti orðið spennandi,“ sagði Pálmi Rafn við Morgunblaðið en hann lék í sjö ár í Noregi með Stabæk og Lilleström áður en hann sneri heim í vetur.

„Ég geri mér að sjálfsögðu grein fyrir því að þetta verður mjög erfiður leikur og við erum minna liðið í þessu einvígi. En það er svo sannarlega möguleikar hjá okkur. Ég tel okkar lið vera það gott að við eigum að geta staðið uppi í hárinu á liði eins og Rosenborg. Til að mynda tel ég að KR sé ekki með lakara lið heldur en Lilleström sem ég spilaði með og að mínu viti erum við ekki svo langt frá Rosenborg. Þetta eru tveir leikir og það getur allt gerst. Við getum slegið Norðmennina út en við getum líka steinlegið fyrir þeim. Okkur hefur gengið vel. Við erum alltaf að þróa okkar leik til betri vegar og mætum með gott sjálfstraust í leikinn,“ sagði Pálmi Rafn.

Sjá viðtalið í heild í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag og umfjöllun um Evrópuleiki íslensku liðanna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert