„Varnarleikurinn hefur verið virkilega góður“

Ásgeir Eyþórsson
Ásgeir Eyþórsson mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

Miðherjinn hávaxni, Ásgeir Eyþórsson, lokaði vörn Fylkis ásamt samherjum sínum á Kópavogsvellinum á mánudagskvöldið. Fylkir hafði þá betur gegn Breiðabliki, 1:0, í 12. umferð Pepsi-deildarinnar og var þetta aðeins í annað skiptið í sumar sem Blikum tekst ekki að skora í deildarleik.

„Við vissum að þeir eru góðir að spila boltanum og það getur verið erfitt að eiga við Blikana. Við vissum hins vegar að við erum sterkari en þeir í teignum og vildum því hleypa þeim fram kantana og loka frekar miðsvæðinu. Það gekk ágætlega. Við héldum okkur aftarlega en reyndum þó að pressa ef færi gafst. Við vorum þolinmóðir og vorum hættulegir í skyndisóknum. Við bjuggumst við því að þeir myndu gefa færi á sér á síðasta hálftímanum og það kom á daginn því þá fengum við nokkur tækifæri,“ sagði Ásgeir þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gær en hann er leikmaður 12. umferðarinnar í Pepsi-deildinni

Á hliðarlínunni hjá Fylki eru tveir fyrrverandi miðverðir, Hermann Hreiðarsson og Reynir Leósson, en Hemmi tók nýlega við þjálfun liðsins. „Við erum með alvöru varnartröll í þjálfarateyminu og þeir hafa hjálpað manni. Varnarleikur liðsins hefur verið virkilega góður.“

Ásgeir leikur í hjarta varnarinnar ásamt Króatanum Tonci Radovinkovic, sem gekk til liðs við Fylki seint í apríl. Ásgeir segir samstarf þeirra ganga afskaplega vel enda er reyndur miðvörður, Kristján Hauksson, á varamannabekknum. „Mér líkar mjög vel að spila við hlið Radovinkovic. Þetta er alger baráttuhundur og vinnur nánast alla skallabolta. Í raun er mjög þægilegt að spila við hliðina á honum því hann les leikinn vel og kann þetta allt. Ég held að við höfum strax náð ágætlega saman og að mínu mati hefur varnarleikurinn verið fínn hjá okkur í sumar.“

Sjá allt viðtalið við Ásgeir í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag sem og lið 12. umferðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert