„Gríðarlega mikilvægur sigur“

Garðar Gunnlaugsson, Skagamaður, í baráttu við Atla Arnarson, Leiknismann, í …
Garðar Gunnlaugsson, Skagamaður, í baráttu við Atla Arnarson, Leiknismann, í leiknum í kvöld. mbl.is/Eva Björk

Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA, var ánægður eftir að hans menn sigruðu Leikni 2:1 í 13. umferð Pepsi-deildar karla á Akranesi í kvöld. „Ég er mjög sáttur. Eins og við vissum þá var þetta mikil barátta. Annað markið okkar gerði útslagið en fram að því höfðu þeir legið á okkur og skapað sér ágæt færi,“ sagði Gunnlaugur við mbl.is að leik loknum.

„Ég er reyndar drullufúll með að við fáum þetta mark á okkur í lok. Engu að síður er sigurinn staðreynd og við erum ánægðir með það.“ Gunnlaugur segir að Skagamenn hafi kannski fallið full aftarlega á völlinn í síðari hálfleik. „Við gáfum þeim eflaust of mikinn tíma á miðjunni og féllum of aftarlega. Við vorum í ákveðnu basli í seinni hálfleik, ég viðurkenni það fúslega.“

Hann segir að skiptingar heimamanna hafi hleypt nýju blóði í leik liðsins. „Mér fannst koma aukakraftur í leik okkar með skiptingunum og þá settum við annað markið sem gerði að sjálfsögðu útslagið undir lok leiksins.“

Skagamenn eru þar með sex stigum ofar en Leiknir, sem eru í næst neðsta sæti deildarinnar. „Við þurfum aðeins að meta stöðuna og horfa í næstu leiki. Vissulega getum við farið að anda aðeins léttar, enda var þetta gríðarlega mikilvægur sigur í dag,“ sagði Gunnlaugur þegar blaðamaður spurði hvort Skagamenn væru farnir að horfa ofar í töfluna eftir gott gengi í síðustu leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert