Hrundi eins og spilaborg

Ólafur Tryggvi Brynjólfsson.
Ólafur Tryggvi Brynjólfsson.

„Við settum hökuna niður í bringu eftir að við fengum fyrsta markið á okkur og liðið brotnaði niður, þar verður bara að segjast. Við áttum fínan fyrri hálfleik og hefðum getað sett á þær nokkur mörk, það var mjög mikið opið fyrir aftan og eiginlega klaufaskapur að við skyldum ekki vera búin að skora,“ sagði Ólafur Tryggvi Brynjólfsson, þjálfari Vals, eftir 5:1 tap liðsins gegn Fylki á útivelli í dag.

Staðan var 0:0 í lok fyrri hálfleiks en Mist Edvardsdóttir, fyrirliði Vals, skoraði klaufalegt sjálfsmark á 48. mínútu. Valur missti höfuðið eftir sjálfsmarkið og var 3:0 undir átta mínútum síðar. Ólafur segir að þreyta hafi verið aðalorsökin í kvöld.

„Það er þreyta í mannskapnum, við erum búin að spila sjö leiki á tuttugu dögum og það tekur rosalega á. Það er allt í lagi að taka þrjá leiki í viku og fá síðan vikufrí en þegar maður er farinn að spila nánast annan hvern dag í svona langan tíma verður maður þreyttur. Við höfum fundið fyrir því á æfingum. Síðan þegar við fengum á okkur þetta mark þá braust þreytan út.“

Valur gerði tvær skiptingar í hálfleik og var þremur mörkum undir 11 mínútum síðar. Hann segir að hann hafi ekki gert neinar breytingar á leikkerfinu í hálfleik.

„Ég setti bara mann inn á fyrir mann. Það var bara heildin sem féll niður. Við vorum að þrýsta á þær á fyrstu mínútunum en síðan fengum við þetta mark á okkur og þá hrundi þetta eins og spilaborg,“ sagði Ólafur.

Elín Metta, sem skoraði eina mark Vals á 89. mínútu i dag, Rebekka Sverrisdóttir og Katrín Gylfadóttir léku allar sinn síðasta leik fyrir Val í ár en þær eru á leiðinni til Bandaríkjanna í háskólanám.

„Þetta var síðasti leikur þeirra. Þær hafa spilað talsvert en við erum með stelpur sem koma inn í staðinn, virkilega góðar stelpur, þannig að það kemur maður í manns stað.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert