„Vildum fara í frí með sigur“

Jörundur Áki Sveinsson.
Jörundur Áki Sveinsson. Eggert Jóhannesson

„Ég er mjög sáttur. Við vorum mjög vonsvikin eftir leikina á móti Stjörnunni. Það sat svolítið í okkur, ég skal alveg viðurkenna það, að fara í framlengingu í bikarnum en við reyndum að stappa í okkur stálinu. Við vildum klára þennan leik þannig að við gætum farið í smá frí með sigur í farteskinu og það tókst mjög vel, fannst mér,“ sagði Jörundur Áki Sveinsson, þjálfari Fylkis, eftir 5:1 sigur liðsins á Val í kvöld.

Fylkir kom til seinni hálfleiks af gríðarlegum krafti og skoraði þrjú mörk á fyrstu 11 mínútum hálfleiksins. 

„Ég sagði ósköp lítið í hálfleik. Við fórum aðeins yfir málin og ákváðum að reyna að gera ákveðna hluti sem tókust vel,“ sagði Jörundur. Hann hafði ekkert að segja um breytingar Vals, en Valur gerði tvær skiptingar í hálfleik sem báru sáralítinn árangur.

„Mér er eiginlega alveg sama um þær. Ég er aðallega ánægður með það hvernig mínar stelpur brugðust við í hálfleik og hvernig þær komu inn í seinni hálfleikinn. Ég er ekkert að spá í það hvað Valur var að gera.“

Það vakti athygli að Sandra Sif Magnúsdóttir væri ekki í byrjunarliði Fylkis í kvöld en hún hefur átt fast sæti í byrjunarliði Fylkis allt tímabilið. Jörundur sagði að hún hafi verið hvíld en leikjadagskrá Fylkis hefur verið þétt undanfarið.

„Við höfum verið að spila mikið af leikjum og ákváðum að breyta aðeins til. Við sögðum um daginn að við værum komin með hóp sem við gætum spilað vel úr. Sandra hefur staðið sig feykilega vel og þetta var ekkert sem snerist að henni“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert