„Á tímabili þurfti ég að æla“

Dagný Brynjarsdóttir í baráttunni gegn Stjörnunni í kvöld.
Dagný Brynjarsdóttir í baráttunni gegn Stjörnunni í kvöld. Mbl.is/Guðmundur Karl

„Þetta var ekki nógu gott hjá okk­ur. Fyrri hálfleik­ur­inn var betri en sá seinni, sem er kannski ólíkt því sem það hef­ur verið hjá okk­ur í sum­ar,“ sagði Dagný Brynj­ars­dótt­ir, leikmaður Sel­foss, eft­ir 1:3 tap á heima­velli gegn Stjörn­unni í Pepsi-deild kvenna í kvöld.

Sel­fyss­ing­ar byrjuðu leik­inn vel, en Donna Kay Henry kom heima­mönn­um yfir áður en Stjarn­an mætti til leiks. Ásgerður Stef­an­ía jafnaði met­in áður en marka­maskín­an, Harpa Þor­steins­dótt­ir, gerði tvö mörk og gerði út um leik­inn.

„Ég veit ekki hvort það hafi verið þreyta. Það eru þrír dag­ar síðan við spiluðum bikarleik­inn gegn Val en ég held samt að menn hafi ekki átt erfitt með að gíra sig í þenn­an leik í kvöld. Ef svo hef­ur verið þá þurfa þeir leik­menn að skoða sín mál. Ég held að það sé ekki hægt að tala um spennu­fall frá því á laug­ar­dag­inn. Þetta eru tvö ólík mót, deild og bik­ar, og menn eiga al­veg að geta kúplað sig aft­ur inn í deild­ina,“ sagði Dagný í sam­tali við mbl.is.

En hvað var að hrjá Sel­fyss­inga í kvöld?

„Síðast þegar við spiluðum við Stjörn­una þá vor­um við yfir í bar­átt­unni. Nú vor­um við ekki nógu ná­lægt mönn­um, vor­um að falla frá þeim og leyfðum þeim að spila alltof auðveld­lega í kring­um okk­ur. Seinni tvö mörk Stjörn­unn­ar eru mjög aula­leg hjá okk­ur, al­gjört sam­skipta­leysi þannig að það á að vera auðvelt að koma í veg fyr­ir svona mörk.“

Lið Sel­foss virt­ist nokkuð lemstrað í kvöld, Sum­mer Williams fór meidd útaf í fyrri hálfleik og sjálf var Dagný far­in að haltra snemma leiks.

„Ég fékk hné í lærið strax á 5. mín­útu og ég viður­kenni að á tíma­bili þurfti ég að æla, ég fann svo mikið til. Þetta var ör­ugg­lega versta hné í læri sem ég hef fengið en það eru tvær vik­ur í næsta leik og ég verð orðin klár þá.“

Fyr­ir leik­inn í kvöld var talað um hann sem upp­hit­un fyr­ir bikar­úr­slita­leik­inn þar sem Sel­foss og Stjarn­an mæt­ast í lok ág­úst. Dagný á ekki von á svipuðum leik þá.

„Nei, þá för­um við nátt­úru­lega og vinn­um þær. Það er bara 1-1 í deild en besta liðið mun vinna á Laug­ar­dals­vell­in­um og það kem­ur í ljós þá hvort liðið það er.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert