Maður fann vel fyrir kraftinum í áhorfendum

Davíð Rúnar Bjarnason.
Davíð Rúnar Bjarnason. Skapti Hallgrímsson

Davíð Rúnar Bjarnason gat verið stoltur af framgöngu sinni í kvöld eftir leik KA og Vals í fyrri undanúrslitaleikinn í Borgunarbikars karla. Valsmenn unnu að lokum eftir vítakeppni en Davíð Rúnar var besti maður vallarins.

Hann bjargaði tvívegis á línu, átti skalla í stöng og stöðvaði hverja Valssóknina á fætur annari. Að auki skoraði hann úr víti í vítaspyrnukeppninni en þetta allt dugði ekki til.

Þegar blaðamaður náði tali af Davíð Rúnari þá sat hann að snæðingi með æskuvini sínum, Valsmanninum Andra Fannari Stefánssyni. Davíð Rúnar var sæmilega brattur þrátt fyrir svekkjandi niðurstöðu. „Ég er ánægður með okkar spilamennsku og vonandi getum við nýtt okkur hana í deildarkeppninni í þeim leikjum sem eftir eru þar. Það hefði verið gott að geta gefið okkar frábæru stuðningsmönnum úrslitaleik. Maður fann vel fyrir kraftinum sem þeir gáfu okkur. Fyrst svona fór þá vil ég bara sjá Andra Fannar og Val lyfta bikarnum.“

Davíð Rúnar hefur verið að spila sem miðvörður í liði KA eftir að Atli Sveinn Þórarinsson þurfti að leggja skóna á hilluna vegna meiðsla.

„Ég þrófaði þessa stöðu fyrst í vetur í deildarbikarnum og var ekkert of hrifinn af því. Eftir að Atli Sveinn hætti þá er ég bara kominn í staðinn og er að finna mig miklu betur. Ég er kominn upp á lag með þetta og ég næ mjög vel saman með Callum (Williams). Það ar svekkjandi að skora ekki þegar boltinn fór í stöngina. Ég sá smá gat en boltinn vildi ekki inn,“ sagði Davíð.

Andri Fannar bætti svo við. „Davíð Rúnar var frábær í leiknum. Við áttum ekki breik í hann. Hann var að spila gegn besta framherja deildarinnar og hélt honum vel niðri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert