Þór skoraði sex gegn Djúpmönnum

Viktor Jónsson og félagar í Þrótti mæta HK í Laugardalnum.
Viktor Jónsson og félagar í Þrótti mæta HK í Laugardalnum. Eva Björk Ægisdóttir

Fimm leikir fóru fram í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld, en Þór og Þróttur unnu ansi örugga sigra.

Fjarðabyggð og Fram gerðu 3:3 jafntefli á Eskjuvelli. Fram byrjaði vel, en Indriði Áki Þorláksson skoraði fyrsta markið áður en Atli Fannar Jónsson bætti við öðru á 37. mínútu. Viktor Örn Guðmundsson minnkaði muninn áður en liðin gengu til búningsherbergja.

Ernir Bjarnason, sem kom inná sem varamaður undir lok fyrri hálfleik, bætti við þriðja marki Framara í byrjun síðari hálfleik og útlit fyrir að Fram myndi næla sér í þrjú stig, en það var ekki raunin.

Brynjar Jónasson minnkaði muninn í eitt mark áður en Viðar Þór Sigurðsson jafnaði metin og lokatölur því 3:3 sem verður að teljast svekkjandi fyrir gestina sem spiluðu manni fleiri í klukkutíma þar sem Milos Ivankovic var rekinn af velli.

Grótta vann Grindavík 1:0. Hilmar Þór Hilmarsson gerði eina mark leiksins á Vivaldi-vellinum á Seltjarnarnesi.

Þróttur fór létt með HK á Valbjarnarvelli. Viktor Jónsson gerði tvö mörk fyrir heimamenn og Vilhjálmur Pálmason ákvað að leika sama leik. Þróttarar halda því toppsætinu, en liðið er stigi á undan Ólafsvíkingum sem unnu Selfyssinga með tveimur mörkum gegn engu í kvöld.

Hrvoje Tokic skoraði fyrra mark Ólafsvíkinga með með laglegri hjólhestarspyrnu áður en Alfreð Már Hjaltalín bætti við öðru. Ólsarar því með 32 stig, fimm stigum á undan Þór sem gekk frá BÍ/Bolungarvík á Akureyri í kvöld.

Þór sigraði 6:1, en Jóhann Helgi Hannesson kom heimamönnum yfir eftir þriggja mínútna leik áður en Pape Mamadou Faye jafnaði leikinn. Sveinn Elías Jónsson kom Þórsurum þó yfir undir lok fyrri hálfleiks.

Elmar Atli Garðarsson, leikmaður BÍ/Bolungarvíkur, fékk að líta sitt annað gula spjald á 60. mínútu og eftir það var leikurinn einstefna. Jóhann Helgi bætti við þriðja markinu áður en Kristinn Þór Rósbergsson skoraði fjórða.

Sveinn Elías gerði svo fimmta markið á 89. mínútu áður en Jónas Björgvin Sigurbergsson rak síðasta naglann í kistuna. Hér fyrir neðan má sjá stöðu efstu liða.

Staðan: 

1. Þróttur 33 stig
2. Víkingur Ó. 32 stig
3. Þór 27 stig
4. Fjarðabyggð 25 stig
5. KA 22 stig
6. Grindavík 21 stig

21:50. Leik lokið. Þór 6:1 BÍ/Bolungarvík.

21:47. MARK! Þór 6:1 BÍ/Bolungarvík. Jónas Björgvin Sigurbergsson að skora sjötta mark Þórsara. Það er aldeilis flóðið á Akureyri. Það gengur ekkert hjá BÍ/Bolungarvík.

21:44. MARK! Þór 5:1 BÍ/Bolungarvík. Sveinn Elías Jónsson með fimmta markið. Þetta er bara vandræðalega núna.

21:39. MARK! Þór 4:1 BÍ/Bolungarvík. Kristinn Þór Rósbergsson að bæta við fjórða markinu.

21:24. MARK! Þór 3:1 BÍ/Bolungarvík. Jóhann Helgi að skora þriðja mark Þórsara. Þetta er að verða svo gott sem komið hjá þeim.

21:15. RAUTT SPJALD! Þór 2:1 BÍ/Bolungarvík. Elmar Atli Garðarsson fær að líta sitt annað gula spjald í liði BÍ og nú er útlitið svart fyrir gestina.

21:09. Þremur leikjum er lokið í kvöld. Úrslit má sjá hér fyrir ofan. Þróttur og Víkingur Ólafsvík með örugga sigra og Grótta með nauman sigur á Grindavík.

20:51. MARK! Þróttur 4:0 HK. Vilhjálmur Pálma að bæta við fjórða markinu fyrir Þrótt. Þetta er of auðvelt.

20:44. MARK! Þór 2:1 BÍ/Bolungarvík. Sveinn Elías Jónsson kemur Þór aftur yfir. 

20:30. MARK! Þór 1:1 BÍ/Bolungarvík. Pape Mamadou Faye að skora, hver annar?

20:40. MARK! Þróttur 3:0 HK. Viktor Jóns. Hvað er að manninum? Hann hættir bara ekki að skora!

20:10. Twitter-samfélagið er að tala um mark Ólsara. Tokic skoraði víst með gullfallegri hjólhestarspyrnu. Það er ansi magnað!

20:25. MARK! Selfoss 0:2 Víkingur Ólafsvík. Alfreð Már Hjaltalín að bæta við öðru fyrir gestina.

20:02. MARK! Þór 1:0 BÍ/Bolungarvík. Jóhann Helgi Hannesson er ekki lengi að þessu. Hann kemur heimamönnum yfir!

20:00. Mark! Selfoss 0:1 Víkingur Ólafsvík. Hrvoje Tokic að koma gestunum yfir áður en flautað er til hálfleiks.

19:57. Leik lokið! Fjarðabyggð 3:3 Fram. Svekkjandi úrslit fyrir Fram, það hlýtur bara að vera. Manni fleiri og 1-3 yfir þegar lítið var eftir. Baráttuandi sem skilar Fjarðabyggð þessu stigi í kvöld.

19:42. MARK! Grótta 1:0 Grindavík. Hilmar Þór Hilmarsson að skora fyrir Gróttu. Öflugt hjá þeim!

19:38. MARK! Fjarðabyggð 3:3 Fram. Andri Þór Magnússon!! Heimamenn jafna leikinn og nú er þetta orðið að alvöru leik. Öflugt hjá Fjarðabyggð, en hrikalega slakt hjá gestunum.

19:33. MARK! Fjarðabyggð 2:3 Fram. Brynjar Jónasson að gefa þessu líf og minnkar muninn fyrir heimamenn. Markavél úr Hafnarfirðinum.

19:31. MARK! Þróttur 2:0 HK. Vilhjálmur Pálmaason að bæta við marki. Þróttarar í góðri stöðu sem stendur.

19:23. MARK! Þróttur 1:0 HK. Viktor Jónsson heldur bara áfram að skora. Hann hefur verið ótrúlegur í sumar og ætlar sennilega að halda því áfram bara.

19:15. Þrír leikir voru að fara af stað nú rétt í þessu. Þróttur og HK eigast við auk þess sem Víkingur mætir Selfyssingum og Grótta mætir Grindavik.

19:02. Mark! Fjarðabyggð 1:3 Fram. Ernir Bjarnason, sem kom inná sem varamaður undir lok fyrri hálfleiks er að bæta við hjá Fram.

18:45. MARK! Fjarðabyggð 1:2 Fram. Viktor Örn  Guðmundsson minnkar muninn. Það er von fyrir heimamenn!

18:37. MARK! Fjarðabyggð 0:2 Fram. Atli Fannar Jónsson að bæta við hjá Fram. Nýju leikmennirnir eru að fara vel af stað, en þetta er annað mark hans í jafnmörgum leikjum.

18:31. RAUTT SPJALD! Fjarðabyggð 0:1 Fram. Milos Ivankovic að fá að líta rauða spjaldið í liði Fjarðabyggðar. Ekki hjálpar það þeim.

18:08. MARK! Fjarðabyggð 0:1 Fram. Indriði Áki Þorláksson er að koma Frömurum yfir snemma leiks. Fáir sem áttu von á þessari byrjun hjá Fram, en það er svoleiðis. Hörkuleikur framundan!

18:00. Leikur Fjarðabyggðar og Fram er kominn af stað. Við munum uppfæra um leið og eitthvað gerist!

17:27: Byrjunarlið bæði hjá Fjarðabyggð og Fram eru komin í hús. Það er einn uppalinn Framari í byrjunarliðinu og í hópnum í heild sinni. Orri Gunnarsson, fyrirliði, fær að eiga þann heiður.

Fjarðabyggð: Kile Gerald Kennedy (M), Sveinn Fannar Sæmundsson, Stefán Þór Eysteinsson (F), Elvar Ingi Vignisson, Jóhann Ragnar Benediktsson, Brynjar Jónasson, Viktor Örn Guðmundsson, Viðar Þór Sigurðsson, Milos Ivankovic, Hafþór Þrastarson, Bjarni Mark Duffield.

Fram: Cody Nobles Mizell (M), Tryggvi Sveinn Bjarnason, Davíð Einarsson, Orri Gunnarsson (F), Hrannar Einarsson, Gunnar Helgi Steindórsson, Indriði Áki Þorláksson, Ingiberg Ólafur Jónsson, Magnús Már Lúðvíksson, Atli Fannar Jónsson, Sebastien Uchechukwu Ibeagha.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert