Quashie aftur í brúna hjá Djúpmönnum

Jón Hálfdán og Nigel Quashie, þjálfarar BÍ/Bolungarvíkur, í leiknum gegn …
Jón Hálfdán og Nigel Quashie, þjálfarar BÍ/Bolungarvíkur, í leiknum gegn Þór í gær. Mbl.is/Skapti

Samúel Samúelsson, formaður knattspyrnudeildar BÍ/Bolungarvíkur í 1. deild karla, staðfesti í dag ráðningu á Nigel Quashie, en hann kemur til með að gegna stöðu aðstoðarþjálfara auk þess sem hann gæti spilað með liðinu í sumar.

Quashie, sem er 37 ára gamall, lék með WBA, Southampton, Portsmouth, Nottingham Forest og West Ham á atvinnumannaferli sínum, en eftir ferilinn leitaði hann til Íslands þar sem hann lék með ÍR auk þess sem hann var í þjálfaraliði félagsins.

Hann gekk til liðs við BÍ/Bolungarvík árið 2013 og lék með liðinu í tvö ár og var ásamt því aðstoðarþjálfari liðsins, en því samstarfi var slitið síðasta haust. Hann hélt þó áfram að þjálfa yngri flokka félagsins.

Quashie er kominn aftur til starfa sem aðstoðarþjálfari liðsins, en hann verður Jóni Hálfdáni Péturssyni, þjálfara liðsins, til halds og trausts út tímabilið.

Skotinn gæti þá spilað eitthvað með liðinu, en það er þó ekkert ákveðið í þeim efnum. Samúel vonast þó til þess að það verði raunin.

Gengi liðsins hefur verið slæmt og ég tel að hann geti hjálpað okkur, það er ekki flóknara en það,“ segir Samúel við BB.is

„Nigel hugsar vel um sig og er alltaf í toppformi og hann er til í slaginn í næsta leik sem er á móti HK 8. ágúst,“ sagði hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert