Skagamenn fá Ragnar á láni frá Brighton

Ragnar Már Lárusson, leikmaður Brighton.
Ragnar Már Lárusson, leikmaður Brighton. mbl.is/Kristinn

Knattspyrnudeild ÍA á Akranesi staðfesti í dag komu Ragnars Más Lárussonar til félagsins, en hann kemur á láni frá Brighton á Englandi.

Ragnar, sem er 18 ára gamall, er uppalinn á Akranesi, en hann samdi við Brighton fyrir tveimur árum og hefur leikið með unglinga- og varaliði félagsins.

Hann mun nú leika með Skagamönnum út tímabilið á láni, en ljóst er að þetta er mikill styrkur fyrir ÍA sem er í botnbaráttunni í Pepsi-deildinni.

„Það er virkilega ánægjulegt að fá Ragnar til liðs við okkur, þrátt fyrir ungan aldur hefur fengið fína reynslu í Englandi og verður gaman að sjá hann í leikmannahóp okkar.  Þetta bar fljótt að og þegar Brighton viðraði þann möguleika að hann skyldi enda tímabilið hjá okkur var þetta aldrei spurning,“ sagði Gunnlaugur Jónsson, þjálfari Skagamanna, um komu Ragnars á heimasíðu liðsins.

Ragnar á að baki 18 landsleiki fyrir yngri landslið Íslands og þá hefur hann gert 4 mörk í þeim leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert