Fengu góða æfingu gegn Breiðabliki

Guðmundur Benediktsson og Bjarni Guðjónsson
Guðmundur Benediktsson og Bjarni Guðjónsson KRISTINN INGVARSSON

„Hún er góð en við skulum ekki tapa okkur í neinni gleði, við erum ekki búnir að klára neitt ennþá,“ sagði Bjarni Guðjónsson þjálfari KR-inga aðspurður um þá tilfinningu að vera kominn með sitt lið í úrslitaleik Borgunarbikarsins í knattspyrnu karla.

KR kom sér í úrslitin í kvöld í fimmta skipti á sex árum og Bjarni er að sjálfsögðu ánægður með það.

„Það er held ég bara nokkuð gott, en ég þekki ekki sögu bikarsins alveg nógu vel en við berum mikla virðingu fyrir bikarkeppninni og þetta er keppni þar sem okkur langar til þess að ná árangri í á hverju ári. Okkur hefur gengið í því ágætlega undanfarin ár,“ sagði Bjarni við mbl.is í kvöld.

„KR-liðið hefur verið gott undanfarin ár og nánast alltaf er KR með góðan mannskap. Svo skiptir þessi virðing sem við höfum fyrir bikarnum máli. Fyrst og fremst er það góður leikmannahópur sem kemur liðinu í þessa stöðu,“ sagði Bjarni aðspurður um þetta góða gengi KR-inga í bikarnum.

Bjarni segir leikinn gegn Breiðabliki á mánudag hafa verið góða æfingu fyrir leikinn í kvöld þar sem Vesturbæingar bjuggust við Eyjamönnum þéttum fyrir.

„Við bjuggumst við þeim þéttum og fengum ágætis æfingu í því á móti Breiðabliki á mánudag. Við fórum aðeins yfir það á þessum tveimur dögum hvernig við ætluðum að leysa það og það gekk mjög vel eftir. Við fórum meira út í breiddina en í síðasta leik, fengum fyrirgjafir. Í fyrri hálfleik sendum við boltann fyrir þrisvar og skorum tvö mörk úr þeim og það var áfram uppleggið í seinni hálfleik,“ sagði Bjarni en hann gerði heilar sjö breytingar á byrjunarliði sínu í kvöld frá jafnteflinu gegn Blikum - eitthvað sem líklega ekkert annað lið á Íslandi í dag getur gert án þess að það komi niður á frammistöðu.

„Hópurinn er mjög þéttur og jafn. Það eru ekkert rosalega margir en þeir sem eru í hópnum - það breytir litlu máli hverjir koma inn. Við getum mjög auðveldlega sagt að það komi maður í manns stað,“ sagði Bjarni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert