„Það er himinn og haf á milli þessara liða“

Gunnar Heiðar Þorvaldsson.
Gunnar Heiðar Þorvaldsson. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

„Þetta er að vera orðið svolítið þreytt,“ sagði Gunnar Heiðar Þorvaldsson við mbl.is í kvöld eftir að KR hafði slegið ÍBV úr leik í bikarnum fjórða árið í röð og í það fimmta á sex árum. Lokatölur í leiknum urðu 4:1 þar sem ÍBV-liðið sá aldrei til sólar.

„Það sögðu allir að nú væri komið að þessu en því miður gekk það ekki í dag. Nú þurfum við bara að kíkja aðeins í tjöldin og þjappa okkur saman,“ sagði Gunnar Heiðar en Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum verður haldin um helgina eins og alþjóð veit.

„Þetta var ekki nærri því nógu gott. Við gerðum allt of mörg byrjendamistök. Sendingafeilar út um allt og á vitlausum stöðum. Lið eins og KR refsa fyrir það. Við erum með lið sem er ungt en það er vonandi að strákarnir læri af þessum mistökum og komi betur stemmdir í næstu leiki,“ sagði Gunnar Heiðar sem segir mikinn mun á getu þessara liða.

„Það er himinn og haf milli þessara liða. KR er með besta hópinn á Íslandi, það er bara staðreynd, og við erum ekki með það. En það býr helling í þessu liði en þetta verður bara upp á líf og dauða í deildinni og svo þarf bara að endurskoða þennan hóp fyrir næsta tímabil,“ sagði Gunnar Heiðar sem segir Eyjamenn þó hafa verið vel stemmda fyrir leikinn.

„Við ætluðum að taka þetta - það voru allir á því en okkur er refsað í svona leikjum með svona mistökum,“ sagði Gunnar Heiðar sem segir að það sé gaman að vera komin heim til Íslands en hann kom í glugganum eftir að hafa verið erlendis í atvinnumennsku frá árinu 2004.

„Það er gaman að vera kominn heim og gaman að sjá að deildin er orðin miklu betri, umgjörðin og umfjöllunin. Nú erum við í dauðafæri að gera þessa deild flotta. Það eru margir sem eru að koma frá Skandinavíu hingað og fá tækifæri og þá koma meiri gæði í deildina. Við erum að gera flotta hluti í Evrópudeildinni líka og landsliðið - þetta er allt upp á við. Það er gaman að fá að taka þátt í því,“ sagði Gunnar Heiðar sem segir það alveg ljóst að ÍBV sé ekki að fara að falla úr efstu deild.

„Ég er ekki að fara að falla með ÍBV - það er bara þannig,“ sagði Gunnar Heiðar en ÍBV hefur stigi meira en Leiknir í næstneðsta sætinu í Pepsi-deildinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert