Sterkur sigur Blika í dalnum

Emil Atlason og Elfar Freyr Helgason í leiknum í kvöld.
Emil Atlason og Elfar Freyr Helgason í leiknum í kvöld. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Blikar unnu sterkan 1:0 sigur á Val í kvöld á Laugardalsvelli í Pepsi-deild karla í knattspyrnu. Eina mark leiksins skoraði Jonathan Glenn í fyrri hálfleik. Blikar halda sér með sigrinum í 3. sætinu og hafa 29 stig en Valsarar hafa fjarlægst toppbaráttuna verulega og hafa 24 stig.

Valsmenn byrjuðu leikinn nokkuð vel og voru mjög ákveðnir. Þeir höfðu fín tök á leiknum fyrsta korterið en Blikarnir unnu sig inn í leikinn jafnt og þétt.

Á 38. mínútu skoraði Jonathan Glenn, framherji Blika, fyrsta markið í leiknum. Eftir ágæta sókn Blika, sem hófst með skemmtilegum töktum miðvarðar þeirra, Damirs Muminovic, þá barst boltinn að lokum til hins skotvissa Guðjóns Pétur Lýðssonar sem lét vaða á markið en boltinn fór í höfuð Glenns, breytti um stefnu og þaðan í netið, 1:0 fyrir Blika og þannig stóðu leikar í hálfleik.

Í síðari hálfleik voru það Blikar sem höfðu yfirhöndina með Jonathan Glenn í farabroddi. Þeir fengu færin, þar á meðal fékk Kristinn Jónsson algjört dauðafæri á 69. mínútu en hann fór afar illa að ráði sínu og ákvað að reyna að vippa yfir Anton Ara Einarsson í Valsmarkinu en skotið beint framhjá.

Valsmenn pressuðu lítilega á Blika á lokamínútunum en Blikar héldu út, 1:0 lokatölur og afar mikilvæg þrjú stig í hús fyrir Kópavogspilta.

Fylgst var með gangi mála í öllum leikjum á einum stað í ÍSLENSKA BOLTANUM Í BEINNI hér á mbl.is.

Valur 0:1 Breiðablik opna loka
90. mín. Það eru fimm mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert