Alveg furðulegur fótboltaleikur

„Eitt stig gerir ekki mikið fyrir okkur núna en það er þó betra en ekkert,“ sagði Haukur Ingi Guðnason, einn þjálfara Keflavíkur, eftir 3:3 jafntefli liðsins gegn Fylki í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Fimm mörk voru skoruð á fyrstu tuttugu mínútunum og mega Keflavík þakka markverði sínum, Sindra Kristni Ólafssyni, að fá þó eitt stig.

„Hann á stóran þátt i því að við getum farið héðan með eitt stig. Þetta er framtíðar markvörður Ísland að mínu viti og sýndi það í dag úr hverju hann er gerður. Að öllu jöfnu mundi maður halda það að þrjú mörk ættu að duga til að landa þremur stigum en þetta var alveg furðulegur fótboltaleikur á margan hátt,“ sagði Haukur Ingi, en Keflavík er enn á botninum, sjö stigum frá öruggu sæti.

„Við höldum áfram þar til þetta er tölfræðilega úr sögunni. Eftir því sem leikjunum fækkar því færri stig verða í pottinum og við vitum að við verðum að fara að ná sigri. Vonandi fer að styttast í hann,“ sagði Haukur Ingi, en nánar er rætt við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert