ÍBV krefst þess að KR verði dæmdur ósigur

Úr leik KR og ÍBV.
Úr leik KR og ÍBV. Sigfús Gunnar

Eins og fram kom á mbl.is fyrr í kvöld var leik ÍBV og KR sem fram átti að vera í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld frestað klukkutíma fyrir leik þar sem KR-ingar voru ekki mættir.

Vesturbæingar tóku flug til Eyja en vegna þoku var ekki hægt að lenda og vélinni því snúið við. Leiknum var því frestað, nokkuð sem Eyjamenn voru hundóánægðir með þar sem greiðfært hefur verið á milli lands og Eyja með Herjólfi í allan dag. Þá var dómarateymi leiksins einnig mætt á völlinn.

Knattspyrnuráð ÍBV sendi KSÍ bréf í kjölfar frestunarinnar þar sem Eyjamenn krefjast þess að verða dæmdur sigur í leiknum þar sem KR-ingar hefðu ekki gilda afsökun fyrir því að mæta ekki í leikinn, en bréfið var birt í Pepsi-mörkunum í kvöld.

„Allir sem tengjast leiknum eru komnir á vettvang vandræðalaust, nema hluti KR hópsins, sem það félag ákvað að skyldi velja eina ferðamátann sem var vafasamur í dag vegna veðurspár. KR á að sjálfsögðu að bera hallann af því og vera dæmdur leikurinn tapaður ef þeir mæta ekki til hans. Knattspyrnuráð ÍBV krefst þess að mótanefnd KSÍ endurskoði þessa ákvörðun og að KR verði dæmdur leikurinn tapaður,“ segir meðal annars í bréfinu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert