„Erum með sterkara lið en í fyrra“

Guðmunda Brynja Óladóttir er orðinn verulega spennt fyrir morgundeginum þegar …
Guðmunda Brynja Óladóttir er orðinn verulega spennt fyrir morgundeginum þegar liðið mætir Stjörnunni í bikarúrslitum. Styrmir Kári

Guðmunda Brynja Óladóttir, fyrirliði kvennaliðs Selfoss, hefur beðið nokkuð lengi og með þó nokkurri eftirvæntingu eftir bikarúrslitaleik liðsins gegn Stjörnunni sem fram fer á Laugardalsvellinum á morgun. Liðin mættust einnig í fyrra og þá hafði Stjarnan betur og Guðmunda Brynja vonast eftir því að Selfoss geti snúið taflinu við á morgun. 

„Ég er orðin svakalega spennt, ég er búinn að bíða eftir þessu núna alveg frá því eftir undanúrslitaleikinn við Val. Við höfum reynt að einbeita okkur að deildinni, en þessi leikur er alltaf bakvið eyrað, ég get ekki neitað því. Við erum mjög spenntar að fá að mæta Stjörnunni aftur í bikarúrslitum og reyna að hefna fyrir ófarirnar í fyrra,“ sagði Guðmunda Brynjar í samtali við mbl.is í gær.

„Ég tel okkur klárlega vera betur í stakk búnar í ár til þess að vinna bikarinn. Árið í fyrra veitti okkur mikla og góða reynslu. Núna vitum við betur út í hvað við erum að fara af því að við höfum upplifað þetta áður. Spennustig hjá leikmönnum liðsins er gott og betra en í fyrra finnst mér. Mér finnst liðið líka sterkara í ár og sem dæmi þá gerir nærvera Dagnýjar (Dagný Brynjarsdóttir) og Thelmu (Thelma Björk Einarsdóttir) liðið klárlega þéttara,“ sagði Guðmunda Brynja enn fremur. 

Selfyssingar og nærsveitungar fjölmenntu á bikarúrslitaleik liðanna í fyrra og Guðmunda Brynja segir að markmiðið sé að skapa enn betri umgjörð í kringum leikinn í ár.

„Það á að gera betur í ár. Hafa stemminguna í kringum meiru og umgjörðina flottari. Vonandi tekst það og Selfyssingar fjölmenni á leikinn og styðji okkur til sigurs. Við þurfum að stilla spennustigið rétt hjá okkur og gera eins fá einstaklingsmistök og nokkur kostur er, ef við gerum það þá lyftum við bikarnum,“ sagði Guðmunda Brynja að lokum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert