„Skemmtilegt að spila við Selfoss“

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir er klár í slaginn fyrir bikarúrslitaleikinn gegn …
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir er klár í slaginn fyrir bikarúrslitaleikinn gegn Selfossi á morgun.

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar í knattspyrnu, er virkilega spennt fyrir bikarúrslitaleik  liðsins gegn Selfoss sem fram á laugardaginn kemur. Ásgerður Stefanía býst við hörkuleik, en henni finnst Selfoss liðið bæði erfiður og skemmtilegur andstæðingur.

„Þetta er ofboðslega skemmtilegur leikur og maður stefnir alltaf að því að komast í þennan leik. Allur dagurinn er skemmtilegur og undirbúningurinn líka. Það er mikil tilhlökkun í okkar herbúðum,“ sagði Ásgerður Stefanía í samtali við mbl.is í gær.

Það hefur verið nóg að gera hjá Stjörnunni upp á síðkastið, en liðið spila bæði í deild og bikar auk þess að vera tiltölulega nýkomnar frá Kýpur þar sem liðið tryggði sér sæti í 32 liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu. 

„Leikjaálagið undanfarið mun ekki hafa nein áhrif á okkur í leiknum á laugardaginn. Þreyta er hugarástand. Við þurfum bara að gleyma því að við séum búnir að spila svona marga leiki undanfarið og spila á fullu allar 90 mínúturnar. Ég er alveg klár á því að við munum ekki finna fyrir þreytu á laugardaginn,“ sagði Ásgerður Stefanía aðspurð um það hvort að þreytu sé farið að gæta í Stjörnuliðinu. 

„Þetta verður klárlega hörkuleikur eins og leikurinn í fyrra var. Úrslitin gefa alls ekki rétta mynd af leiknum í fyrra. Þær áttu fullt af góðum sóknum og þetta var hnífjafnt allan tímann. Mér fannst mjög gaman að spila þennan leik og ég býst við því að þetta verði svipaður leikur. Leikir þessi liða hingað til í sumar hafa verið jafnir og leikirnir sem að ég hef spilað við þær í sumar hafa verið harðir og skemmtilegir. Mér finnst mjög skemmtilegt að spila við Selfoss. Þetta eru naglar og þær eru mjög ástríðufullar,“ sagði Ásgerður Stefanía enn fremur.

„Hungrið í að halda þessum titli er mikið, sérstaklega eftir leikinn á föstudaginn gegn Blikum á föstudaginn var. Við þurfum bara að einblína á okkar leik og ef að að spilum af fullri getu er ég viss um að við förum með sigur af hólmi. Ég hlakka mikið til að spila þennan leik,“ sagði Ásgerður Stefanía að lokum.     

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert