Framarar unnu - Grótta áfram í fallsæti

Framarar unnu mikilvægan sigur í dag.
Framarar unnu mikilvægan sigur í dag. Styrmir Kári

Fram vann gríðarlega mikilvægan sigur þegar botnlið BÍ/Bolungarvíkur kom í heimsókn í 1. deild karla í knattspyrnu í dag. 

Sigurður Gísli Snorrason kom Fram yfir á 10. mínútu og staðan var 1:0 í hálfleik. Elmar Atli Garðarsson jafnaði fyrir Djúpmenn tuttugu mínútum fyrir leikslok. Orri Gunnarsson bætti hins vegar við tveimur mörkum með fjögurra mínútna millibili fyrir Fram undir lokin og tryggði þeim 3:1 sigur.

Eftir sigurinn er Fram í níunda sætinu með 21 stig, sex stigum frá Gróttu sem situr í næstneðsta sæti. Djúpmenn voru hinsvegar þegar fallnir fyrir leikinn, með fimm stig í botnsætinu.

Grótta var einnig að spila og fékk Þórsara í heimsókn. Jóhann Helgi Hannesson klúðraði víti fyrir Þórsara í fyrri hálfleik, en bætti fyrir það strax í upphafi síðari hálfleiks og tryggði þeim 1:0 sigur. Þórsarar eru í fjórða sætinu með 32 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert