Jafnt í hörkuleik í Vesturbænum

Valsmenn fagna eftir að hafa skorað á fyrstu mínútu en …
Valsmenn fagna eftir að hafa skorað á fyrstu mínútu en Jónas Guðni Sævarsson er ekki eins glaður. mbl.is/Eva Björk

KR og Valur gerðu 2:2 jafntefli í hörkuleik í 18. umferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í Vesturbænum í kvöld. Heimamenn geta því kvatt titilbaráttuna, eru sjö stigum á eftir FH þegar fjórar umferðir eru eftir. Valsmenn sigla lygnan sjó og virðast ekki geta tapað gegn KR.

Valsmenn hófu leikinn af miklum krafti og voru ekki lengi að koma boltanum í netið. Kristinn Ingi Halldórsson gerði það eftir 30 sekúndur. Hann fékk þá sendingu frá Mathias Schlie frá vinstri vængnum og skallaði boltann í markið. KR-ingar virtust hálf vankaðir við þetta og gestirnir sterkari meirihlutann af fyrri hálfleiknum

Heimamenn unnu sig hægt og rólega inn í leikinn og jöfnuðu metin á 33. mínútu leiksins en það var mikill heppnisstimpill á því marki. Jacob Schoop tók aukaspyrnu og Kristinn Freyr Sigurðsson varð fyrir því óláni að skalla boltann í eigið net. KR því búið að jafna leikinn án þess þó að hafa skorað gegn Val sumarið 2015.

Gestirnir fengu færi til að bæta við marki, það besta fékk Kristinn Freyr. Hann sólaði þá fjóra leikmenn KR áður en hann átti skot sem Stefán Logi í marki heimamanna varði meistaralega. Lengra komust liðin ekki og staðan 1:1 þegar Garðar Örn Hinriksson, dómari leiksins, flautaði til hálfleiks í fjörugum leik.

KR-ingar virtust ætla að byrja síðari hálfleikinn af krafti en Valsmenn voru fyrri til að koma boltanum í netið. Sigurður Egill Lárusson kom gestunum yfir á 52. mínútu með frábæri marki þegar hann tók boltann á lofti eftir fyrirgjöf Kristins Inga og boltinn söng í netinu, óverjandi fyrir Stefán Loga í marki KR.

Við það var eins og allur vindur væri úr KR-ingum. Þeir ógnuðu marki gestanna lítið, nema rétt í lokin þegar Jacob Schoop skallaði yfir mark þeirra úr sannkölluðu dauðafæri. 

Flestir héldu að leikurinn væri að fjara út og Valsmenn að vinna KR í þriðja skipti í sumar þegar Almarr Ormarsson jafnaði leikinn með skallamarki á 90. mínútu leiksins. Heimamenn reyndu eins og þeir gátu að bæta við marki í uppbótartíma en fleiri urðu mörkin ekki og 2:2 jafntefli því niðurstaðan.

KR 2:2 Valur opna loka
90. mín. Valur fær hornspyrnu Sem ekkert verður úr.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert