„Þurfum þrjú stig til að vera öruggir“

Víkingur laut í lægra haldi gegn FH í kvöld og …
Víkingur laut í lægra haldi gegn FH í kvöld og eru ekki enn hólpnir í fallbaráttunni. Eva Björk Ægisdóttir

Milos Milojevic, þjálfari Víkings, var ánægður með spilamennsku Víkings þegar liðið tapaði fyrir FH með einu marki gegn engu í 18. umferð Pepsi deildar karla í knattspyrnu á Kaplakrikavelli í kvöld. Milos fannst frammistaða liðsins verðskulda allavega eitt stig og var hann því svekktur í leikslok.

„Þetta er fyrsta tap okkar i langan tíma og það er súrt. En svona er fótboltinn, ef þú nýtir ekki þau færi sem þú færð gegn jafn góðu liði og FH er þá færðu ekkert út úr leiknum þrátt fyrir að þú spilir vel,“ sagði Milos Milojevic í samtali við mbl.is eftir leikinn í kvöld.

„Við fengum fín færi í leiknum og vorum inni í leiknum allan tímann. Við vorum vel skipulagðir og þeir áttu í erfiðleikum með að brjóta okkur á bak aftur. Strákarnir lögðu sig alla fram, við áttum fína kafla bæði spilalega úti á vellinum og sköpuðum okkur líka færi eftir gott spil,“ sagði Milos Milojevic enn fremur.

„Samkvæmt mínum útreikningum þurfum við þrjú stig til þess að sleppa endanlega við fall. Við þurfum að næla okkur í þessi stig einhvers staðar í síðustu fjórum leikjum liðsins. Næsti leikur er gegn Breiðabliki, við verðum svekktir í kvöld, en förum svo að undirbúa okkur fyrir þann leik,“ sagði Milos Milojevic að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert