Beðið eftir landsleiknum (Myndasyrpa)

Lífið gengur að miklu leyti sinn vanagang í dag í þeirri góðu borg, Amsterdam. Fólk fer í vinnu eða á markaðinn, sporvagnarnir liðast hæglátlega um götur og að minnsta kosti fimmti hver heimamaður virðist ferðast um á reiðhjóli. Það er aðeins á Dam torgi í miðborginni sem fjörið er óvenju mikið.

Hollendingar taka á móti Íslendingum í afar mikilvægum leik í undankeppni Evrópumótsins sem fram fer í Frakklandi næsta sumar. Ísendingar eru á toppi riðilsins en Hollendingar í þriðja sæti. Þeir geta að sjálfsögðu ekki hugsað sér EM án Hollands, það er margítrekað i hollensku blöðunum í morgun, og ljóst að leikmenn leggja allt í sölurnar til að ná í þrjú stig gegn Íslandi. 

Margir stuðningsmenn Íslands komu saman á Dam-torginu í gær en gríðarlegur fjöldi hefur nú bæst við enda komu margir með flugi að heiman í morgun. Stuðningssöngvar Íslands eru sungnir hástöfum og þegar hvíla þarf raddböndin um stund, svo þau verði enn í lagi þegar leikurinn hefst, hljómar íslensk tónlist af diskum og græjurnar á Euro Pub stilltar í botn! Í þessum skrifuðu orðum er það Stolt siglir fleyið mitt, sem tryllir lýðinn! Fjörið er að færast í aukana.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert