EM blasir við eftir magnaðan sigur í Hollandi

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu er komið í algjört dauðafæri til að tryggja sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins 2016 í Frakklandi eftir óvæntan en frækinn sigur á Hollendingum 1:0, í Amsterdam í kvöld.

Gylfi Þór Sigurðsson skoraði sigurmarkið og Ísland er nú með 18 stig í afar góðri stöðu á toppi riðilsins. Tékkland er með 16 stig eftir sigur á Kasakstan, 2:1. Holland er með 10 stig, Tyrkland 9, Lettland 4 og Kasakstan 1 stig.

Ísland þarf aðeins einn sigur í síðustu þremur leikjunum til að komast á EM og getur tryggt sér sætið þar með því að sigra Kasakstan á Laugardalsvellilnum á sunnudagskvöldið.

Ísland fékk dauðafæri strax á 7. mínútu þegar Jóhann Berg Guðmundsson sendi boltann þvert fyrir hollenska markið og engu munaði að Jóni Daða Böðvarssyni tækist að stýra boltanum í netið.

Hollendingar sóttu talsvert um miðbik fyrri hálfleiks en urðu fyrir áfalli þegar Arjen Robben meiddist á 27. mínútu og var skipt af velli í kjölfarið.

Síðan dró heldur betur til tíðinda á 32. mínútu þegar Bruno Martins Indi miðvörður Hollendinga fékk rauða spjaldið fyrir að slá til Kolbeins Sigþórssonar.

Staðan í hálfleik var 0:0.

Á 51. mínútu braut Gregory van der Wiel á Birki Bjarnasyni og réttilega var dæmd vítaspyrna. Gylfi Þór Sigurðsson skoraði úr henni, 0:1, en litlu munaði að Jasper Cillessen tækist að verja.

Jóhann Berg Guðmundsson var hársbreidd frá því að koma Íslandi tveimur mörkum yfir á 55. mínútu þegar hann átti hörkuskot í stöng. Cillessen varði skömmu síðar mjög vel frá Gylfa sem átti gott skot sem stefndi í markhornið.

Hollendingar sóttu mjög á lokakafla leiksins, Hannes Þór Halldórsson hafði í nógu að snúast en varð þau skot sem á markið komu af öryggi. 

Holland 0:1 Ísland opna loka
90. mín. Venjulegur leiktími er liðinn. Bætt við 3 mínútum.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert