Ísland komið á EM á sunnudagskvöld?

Íslenska landsliðið á æfingu á AmsterdamArena í gær.
Íslenska landsliðið á æfingu á AmsterdamArena í gær. AFP

Íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu gæti verið búið að tryggja sér sæti í lokakeppni Evrópumótsins 2016 um hálfníuleytið á sunnudagskvöldið kemur.

Það er hin einfalda staðreynd þegar horft er á leikina tvo sem nú fara í hönd. Viðureignina við bronslið HM 2014, Hollendinga, í Amsterdam í kvöld og við Kasakstan á Laugardalsvellinum á sunnudag. Tveir sigrar þýða einfaldlega að Ísland væri öruggt með annað tveggja efstu sætanna í A-riðli.

Að sama skapi gæti staðan breyst á hinn veginn, ef leikirnir tapast, og Ísland yrði dottið niður í þriðja sæti og komið í harðan slag um að halda því fyrir tvær síðustu umferðirnar.

Eftir sex umferðir af tíu er Ísland með 15 stig, Tékkland 13, Holland 10, Tyrkland 8, Lettland 3 og Kasakstan 1 stig.

Tékkar leika á heimavelli við Kasakstan í kvöld og Tyrkir fá Letta í heimsókn.

Á sunnudag, þegar Ísland mætir Kasakstan, leikur svo Lettland við Tékkland og Tyrkir fá Hollendinga í heimsókn.

Að þessum leikjum loknum verða átta umferðir búnar og komnar skýrar línur í hver staðan verður fyrir lokaslaginn um miðjan október. Þá leikur Ísland við Lettland á heimavelli og loks við Tyrkland á útivelli.

Tvö efstu liðin fara beint á EM, líka liðið sem nær besta árangri í þriðja sæti, en önnur lið sem enda í þriðja sæti fara í umspil.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert