Ná vonandi markalausu jafntefli

Pétur vonast til þess að Hannes Þór Halldórsson haldi markinu …
Pétur vonast til þess að Hannes Þór Halldórsson haldi markinu hreinu í kvöld, eins og hann hefur gert í fjórum leikjum af sex í undankeppninni. mbl.is/Golli

Pétur Pétursson lék við afar góðan orðstír í Hollandi með Feyenoord á sínum tíma sem leikmaður. Hann þekkir vel til hollenska landsliðsins í knattspyrnu, og auðvitað einnig þess íslenska, og býst við sigri Hollands í kvöld.

„Hollendingarnir verða að vinna í kvöld. Fyrir Ísland er nóg að vinna heimaleikina gegn Kasakstan og Lettland. Alla jafna ætti það að duga til að fara til Frakklands,“ sagði Pétur við hollenska ríkissjónvarpið.

Ísland er á toppi A-riðils með 15 stig en Holland er í 3. sæti með 10 stig.

„Þetta er mjög mikilvægur leikur fyrir alla. Það verður eitt prósent íslensku þjóðarinnar á Amsterdam Arena í kvöld, og restin fylgist með í sjónvarpinu,“ sagði Pétur, og útskýrði svo stuttlega velgengni íslenska liðsins:

„Í liðinu núna eru 20 leikmenn sem spila í góðum deildum á borð við þá spænsku, ensku og hollensku. Flestir leika stórt hlutverk í sínu liði og þess vegna er Lars Lagerbäck með mjög gott lið í höndunum,“ sagði Pétur, sem vonast til þess að Ísland geti náð í stig úr leiknum í kvöld.

„Vanalega er Holland mun betra lið en Ísland. Þess vegna verður þetta erfitt, sérstaklega ef Holland skorar snemma. Vonandi nær Ísland 0:0-jafntefli en ég held að Holland vinni 1:0,“ sagði Pétur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert