Tók fram skóna eftir langt hlé

Erna Björk Sigurðardóttir í baráttu við Soniu Bompastor í leik …
Erna Björk Sigurðardóttir í baráttu við Soniu Bompastor í leik Íslands og Frakklands á EM 2009 í Finnlandi. mbl.is/Golli

Erna Björk Sigurðardóttir, fyrrverandi landsliðskona í knattspyrnu, tók í gær fram fótboltaskóna á ný eftir hlé í hálft sjötta ár.

Erna, sem er 32 ára gömul, lék með Breiðabliki frá 1998 til 2009, spilaði 134 leiki með liðinu í efstu deild og varð með því þrisvar Íslandsmeistari og tvisvar bikarmeistari.

Erna spilaði 36 landsleiki fyrir Íslands hönd. Hún var í íslenska landsliðinu sem lék í fyrsta sinn í lokakeppni Evrópumótsins í Finnlandi árið 2009 og spilaði tvo af þremur leikjum liðsins þar. Hún lék með landsliðinu í Algarve-bikarnum í Portúgal í mars 2010 en varð síðan fyrir alvarlegum hnjámeiðslum, í fjórða sinn á ferlinum, og lagði skóna á hilluna í kjölfarið.

Í gær var Erna hinsvegar mætt í búning Augnabliks sem mætti Grindavík í átta liða úrslitum 1. deildar kvenna á Grindavíkurvelli. Hún lék síðustu tíu mínúturnar og náði að koma boltanum í mark Grindvíkinga en markið var dæmt af vegna  brots. Sashana Campbell skoraði hinsvegar sigurmark Grindavíkur, 1:0, á 87. mínútu. Grindavík vann því einvígið 3:2 og mætir ÍA í úrslitum um sæti í efstu deild.

Augnablik, sem er nokkurs konar B-lið Breiðabliks og nær eingöngu skipað leikmönnum úr 2. og 3. flokki félagsins, er þar með úr leik í 1. deildinni, þannig að þetta var bæði fyrsti og síðasti leikur Ernu á þessu tímabili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert