„Við erum stóru skrefi nær takmarkinu“

Ari Freyr Skúlason og Eiður Smári Guðjohnsen.
Ari Freyr Skúlason og Eiður Smári Guðjohnsen. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Eiður Smári Guðjohnsen var í sjöunda himni eftir sigur Íslands á Hollandi á Amsterdam ArenA í kvöld. Ísland steig í kvöld stórt skref í átt að lokakeppni Evrópukeppni landsliða sem fram fer í Frakklandi á næsta ári. Eiður Smári segir að liðið sé staðráðið í að halda toppsætinu sem þeir sitja í eins og sakir standa allt til enda. 

„Það er frábært að koma hingað og vinna sigur. Við vissum alveg að það myndi liggja á okkur í þessum leik, en við ætluðum okkur að reyna að spila út úr pressunni þeirra og mér fannst við gera það ágætlega,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen, leikmaður Íslands, í viðtali við RÚV eftir leikinn í kvöld. 

„Við vorum skipulagðir í þessum leik eins og við höfum verið alla undankeppnina. Við fengum líka ágætis tækifæri fyrir utan markið sem við skoruðum. Þetta var baráttusigur og við vörðumst allan tímann sem ein heild. Í þau skipti sem að þeir náðu að spila sig í gegnum okkur þá var Hannes Þór Halldórsson með allt á hreinu eins og vanalega,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen enn fremur.

„Við erum stóru skrefi nær því að komast í lokakeppnina eftir þennan sigur. Holland er einn af okkar mótherjum í þeirra baráttu um að komast í lokakeppnina og við erum búnir að skilja Holland aðeins frá okkur. Við erum efstir í riðlinum og erum staðráðnir að halda því til loka næst á eftir,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert