Byrja að skoða frönsku hótelin í dag

Norska blaðið Verdens Gang segir að Íslendingar geti í dag hafist handa við að skoða hótelin í Frakklandi fyrir lokakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu næsta sumar, eftir að hafa unnið frækinn sigur á Hollendingum í Amsterdam í gærkvöld, 1:0.

„Íslenska ævintýrið ætlar engan endi að taka. Eftir 1:0 sigur á Hollandi í Amsterdam er næstum útilokað að liðið missi af EM-sætinu. Eitt stig í þremur leikjum er allt sem Ísland þarf til að tryggja sig, þar sem liðið er átta stigum á undan Hollendingum og Ísland fer áfram á innbyrðis leikjum ef liðin verða jöfn," segir í inngangi fréttar VG.

„Ísland undir stjórn Lars Lagerbäcks er í sérflokki, liðið vann Holland líka á heimavelli og er með 18 stig eftir sjö leiki - og næst taka við heimaleikir við Kasakstan og Lettland," segir ennfremur í ítarlegri umfjöllun blaðsins um leikinn í Amsterdam - og hún endar svona: „Í lokin gátu Íslendingar sleppt sér algjörlega í fögnuði með þrjúþúsund stuðningsmönnum sem voru mættir á leikinn. Í dag geta þeir byrjað að skoða frönsku hótelin."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert