„Erum að nálgast stóru þjóðirnar“

Eyjólfur Sverrisson og Tómas Ingi Tómasson aðstoðarmaður hans í leiknum …
Eyjólfur Sverrisson og Tómas Ingi Tómasson aðstoðarmaður hans í leiknum gegn Makedóníu í fyrstu umferðinni. Eggert Jóhannesson

Eyjólfur Sverrisson, þjálfari íslenska U-21 árs landsliðsins í knattspyrnu, er brattur fyrir leik liðsins gegn Frökkum í annarri umferð í undankeppni Evrópumóts landsliða sem fram fer í Frakklandi árið 2017. Leikurinn verður á Kópavogsvelli á morgun og hefst klukkan 14.00. 

„Við erum virkilega vel gíraðir. Það er mikil stemming í hópnum sem og þjóðfélaginu öllu. Það er mikil tilhlökkun hjá leikmönnum liðsins og öllum þeim sem standa að liðinu. Leikur A landsliðsins í gær sýnir okkur að það er allt hægt og hvað við erum komnir nálægt þessum stóru þjóðum í knattspyrnu,“ sagði Eyjólfur í samtali við mbl.is í dag.

„Það er alltaf möguleiki í öllum leikjum til þess að vinna leikinn. Við höfum séð það bæði hjá U-21 árs landsliðinu og A landsliðinu undanfarin ár. Frakkar eru hins vegar með leikmenn sem eru á mála hjá liðum í efstu deildum í Englandi, Hollandi og Frakklandi þannig að þetta verður erfiður leikur,“ sagði Eyjólfur.

„Við erum hins vegar með okkar leikplan sem gengur út frá því að við förum í þennan leik til þess að vinna hann. Við stefnum á sigur, það er alveg klárt. Við erum í mjög erfiðum riðli. Við, Úkraínumenn, Frakkar og Skotar munu líklega reita stig hvert af öðru. Það mun líklega ekkert annað en efsta sætið í riðlinum duga til þess að fara áfram og þá er ekkert annað að gera en að enda efstir, sagði Eyjólfur.

„Við munum líklega koma varkárir inn í þennan leik, loka miðsvæðinu og sækja svo hratt á þá. Við verðum að verjast vel sem ein heild. Við þekkjum styrkleika þeirra og vitum hverju við þurfum að loka. Við vitum líka hvaða veikleika þeir hafa og ætlum að nýta okkur þá þegar við sækjum. Ef að leikmennirnir fylgja leikplaninu, eins og ég er viss um að þeir munu gera þá stöndum við uppi sem sigurvegarar á morgun, sagði Eyjólfur Gjafar Sverrisson að lokum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert