Robben verður ekki með gegn Tyrkjum

Arjen Robben sár og svekktur á meðan leik Hollands og …
Arjen Robben sár og svekktur á meðan leik Hollands og Íslands stóð í gær. AFP

Arjen Robben, leikmaður Bayern München og hollenska landsliðsins, verður ekki með Hollendingum þegar liðið mætir Tyrkjum í áttundu umferð í undankeppni Evrópumóts landsliða á sunnudaginn kemur. Þetta var staðfest á heimasíðu þýska félagsins í dag. 

Robben fór meiddur af velli um miðbik fyrri hálfleiks þegar Holland beið lægri hlut gegn Íslandi í gærkvöldi. Þá strax var ljóst að ólíklegt væri að Robben yrði klár í tæka tíð fyrir leikinn gegn Tyrkjum á sunnudaginn og nú hefur það verið staðfest að Robben spilar ekki. Robben verður frá í fjórar vikur hið minnsta.

Holland verður að vinna síðustu þrjá leiki liðsins til þess að eiga möguleika á að koma í lokakeppni Evrópumótsins, en það mun ekki duga næli Ísland sér í stig í einhverjum af síðustu þremur leikjum liðsins. Þessar fregnir af meiðslum Robben eru ekki til þess að auka á bjartsýni hollenska liðsins fyrir leikinn gegn Tyrkjum á sunnudaginn. 

Lykti leik Tyrkja og Hollendinga með jafntefli er sæti Íslands í lokakeppni Evrópumótsins sem fram fer í Frakklandi næsta sumar tryggt óháð úrslitum í leikjum Íslands sem eftir eru.

Jermain Lens, leikmaður Sunderland, hefur verið kallaður inn í hollenska hópinn í stað Robben sem er nýskipaður fyrirliði hollenska landsliðsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert