Aron Einar missti af gleðinni í klefanum

Kolbeinn Sigþórsson og Aron Einar Gunnarsson voru teknir í lyfjapróf …
Kolbeinn Sigþórsson og Aron Einar Gunnarsson voru teknir í lyfjapróf eftir sigurinn á Hollandi. Eggert Jóhannesson

„Ég hef aldrei verið betri,“ sagði landsliðsfyrirliðinn Aron Einar Gunnarsson, aðspurður um hvernig staðan væri á sér eftir að hafa orðið fyrir hnjaski í sigrinum á Hollandi í Amsterdam á fimmtudag. Hann er klár í slaginn eins og aðrir leikmenn Íslands fyrir leikinn gegn Kasakstan á morgun, þar sem EM sætið getur verið í höfn.

Aron segir einbeitinguna í fyrirrúmi hjá íslenska liðinu og menn séu reynslunni ríkari eftir umspilsleikina fyrir HM gegn Króatíu, þar sem þjóðin fór nánast á hliðina áður en einvígið var úti.

„Við höfum brennt okkur á þessu áður, heimaleikurinn gegn Króatíu var góður en svo voru hátíðarhöld í kringum útileikinn. Höfum brennt okkur á því áður og ætlum ekki að láta það gerast. Við höfum lært af reynslunni og erum ákveðnir í að klára þetta vel á morgun og fá þrjú stig,“ sagði Aron.

Talandi um fagnaðarlæti, þá missti fyrirliðinn sjálfur af gleðinni í klefanum eftir sigurinn á Hollandi þar sem hann var tekinn beint í lyfjapróf eins og Kolbeinn Sigþórsson. „Við misstum af öllu í rauninni,“ sagði Aron, og bætti því við að erfiðlega hafi gengið að klára það verkefni eins og hann orðaði það, enda vökvatapið mikið á meðan leik stendur.

Skiljanlega var gleðin mikil eftir sigurinn á Hollendingum, en Aron segir að það sem hafi gerst eftir fögnuðinn einkenna þá stöðu sem liðið er í.

„Það voru mikil fagnaðarlæti og svo kom dúnalogn. Það sýnir hvar við erum, við erum með hugann við þetta verkefni og við þurfum að klára það. Reynslan er orðin þannig að menn eru einbeittir á næsta verkefni korteri eftir leik,“ sagði Aron Einar Gunnarsson.

Sjá: Fölskvalaus gleði í klefanum - myndskeið

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert