Dettum ekki í það fyrir partýið

Aron Einar Gunnarsson, Heimir Hallgrímsson og Kolbeinn Sigþórsson á blaðamannafundi …
Aron Einar Gunnarsson, Heimir Hallgrímsson og Kolbeinn Sigþórsson á blaðamannafundi í dag. mbl.is/Andri Yrkill

Það var ekkert nema einbeiting sem skein úr augum landsliðsþjálfarans Heimis Hallgrímssonar á blaðamannafundi fyrir leik Íslands og Kasakstan sem fram fer á morgun. Þar getur Ísland tryggt sér sæti á EM í fyrsta sinn í sögunni.

„Það er auðvelt að missa einbeitinguna. Það er mikið af hamingjuóskum eftir leikinn við Holland en við verðum að vera skýrir í hugsun og klárir á því hvað hefur hjálpað okkur í þessum leikjum hingað til. Við þurfum eitt stig og megum ekki detta í það daginn fyrir partýið. Verðum að vera allsgáðir þegar kemur að þessum leik,“ sagði Heimir. Hann hrósaði Kasakstan mikið og býst við gríðarlega erfiðum leik.

„Þeir eru mjög breyttir frá leiknum úti, sjö leikmenn frá fyrri leiknum voru ekki í byrjunarliðinu í síðasta leik gegn Tékkum. Liðið er í mikilli framför,“ sagði Heimir. Ísland getur raunar verið komið á EM fari úrslitin í öðrum leikjum vel, en hinir leikirnir í riðlinum hefjast áður en flautað verður til leiks á Laugardalsvelli. Munu menn skoða stöðuna þar?

„Eins og tæknin er í dag fá menn píp í símann, það er erfitt að halda upplýsingum frá mönnum. Ekkert eðlilegra en að menn vilji vita hvort þeir séu komnir í lokakeppni Evrópumóts,“ sagði Heimir. Hann segir mun á umgjörðinni í kringum liðið frá umspilsleiknum fyrir HM gegn Króatíu, þar sem menn voru jafnvel farnir að fagna of snemma.

Þar snæddi forsetinn meðal annars með liðinu fyrir síðari leikinn, og aðspurður hvort hann muni gera það sama á morgun sagði Heimir: „Ég veit ekki hvort við getum stoppað hann, en við getum boðið honum í mat seinna bara,“ sagði Heimir Hallgrímsson á blaðamannafundi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert