„Þetta er bara stórkostlegt“

Eyjólfur Sverrisson og Tómas Ingi Tómasson aðstoðarmaður hans.
Eyjólfur Sverrisson og Tómas Ingi Tómasson aðstoðarmaður hans. Eggert Jóhannesson

„Já ég segi nú bara allt fínt núna,“ sagði sigurreifur Eyjólfur Sverrisson, landsliðsþjálfari U21 árs liðs Íslands í knattspyrnu, í samtali við mbl.is eftir ógnarsterkan sigur á Frökkum, 3:2, í undankeppni EM á Kópavogsvelli í dag.

„Ég er virkilega stoltur af strákunum, það var þvílík vinnusemi og menn voru alltaf að hjálpa hverjum öðrum. Það gerir það að verkum að það er mjög erfitt að komast í gegnum okkur og svo vorum við að skapa okkur færi líka. Þetta er bara stórkostlegt að skora þrjú mörk á svona hrikalega öflugt lið,“ sagði Eyjólfur, sem tók undir að sigurinn sendir skýr skilaboð fyrir framhaldið.

„Við höfum oft unnið stórar þjóðir og vitum hvernig við förum að því, það þarf svona vinnusemi og nýta skyndisóknirnar. Við gerðum það virkilega vel í þessum leik,“ sagði Eyjólfur. Ísland fékk sannkallaða draumabyrjun þegar markvörður Frakka var rekinn af velli strax á áttundu mínútu. Gat okkar maður leyft sér að brosa út í annað að sjá spjaldið fara á loft?

„Jájá, þá vissi maður að þetta myndi einfalda hlutina aðeins fyrir okkur en það er oft vandamál í svona stöðu að halda að menn geti slakað aðeins á. En það tókst að vera á tánum,“ sagði Eyjólfur, en hvernig var stemningin á bekknum í uppbótartíma þegar Frakkar höfðu minnkað muninn í 3:2?

„Hún var svolítið rafmögnuð. Við reyndum að koma skilaboðum inn að loka réttu svæðunum svo það var mikil spenna,“ sagði Eyjólfur, sem hefur í nógu að snúast fram á þriðjudag þegar Ísland mætir Norður-Írlandi og ekki er vitað mikið um þeirra lið.

„Ekki neitt, en við fáum upptöku af leiknum þeirra á móti Skotum frá í dag og verðum að hafa hraðar hendur að greina þeirra veikleika og styrkleika. Menn fagna í kvöld en á morgun er nýtt verkefni og þá byrjar þetta aftur fyrir næsta leik,“ sagði Eyjólfur Sverrisson í samtali við mbl.is.

Sjá: Magnaður íslenskur sigur á Frökkum

Sjá: „Elska að vinna pirraða Frakka“

Sjá: Gríðarlega stoltur að vera hluti af þessu

Sjá: „Einhverjir strákar frá Íslandi að standa í þeim“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert