Fall blasir við Gróttu - KA sótti stig í Ólafsvík

Víkingar frá Ólafsvík fögnuðu úrvalsdeildarsætinu í Grindavík á dögunum.
Víkingar frá Ólafsvík fögnuðu úrvalsdeildarsætinu í Grindavík á dögunum. Ljósmynd/Alfons Finnsson

KA er einu stigi fyrir ofan Þrótt R. í baráttunni um 2. sætið í 1. deild karla í knattspyrnu eftir markalaust jafntefli við nýkrýnda meistara Víkings í Ólafsvík í dag. Þróttur á leik til góða við Hauka sem fram fer 15. september. Þremur leikjum var að ljúka í 20. umferðinni.

Selfoss og Grótta áttust við í svakalegum fallslag og vann Selfoss 2:0-sigur. Grótta er í næstneðsta sæti með 15 stig og Selfoss er nú með 20 stig, þegar aðeins tvær umferðir eru eftir. Fram er í 9. sætinu með 21 stig eftir tap gegn HK í gærkvöld.

BÍ/Bolungarvík er fallið niður í 2. deild en liðið gerði 2:2-jafntefli við Fjarðabyggð sem siglir lygnan sjó um miðja deild.

Fylgst var með gangi mála í leikjunum hér á mbl.is:

BÍ/Bolungarvík - Fjarðabyggð, 2:2 (leikskýrsla)
(Pétur Bjarnason 35., Nigel Quashie 44. - Emil Stefánsson 73, Elvar Ingi Vignisson 85.)
Víkingur Ó. - KA, 0:0 (leikskýrsla)
Selfoss - Grótta, 2:0 (leikskýrsla)
(Renato Livramento 37., Haukur Ingi Gunnarsson 89.)

90. Öllum leikjum lokið.

90. Leik lokið í Ólafsvík. Markalaust jafntefli niðurstaðan.

89. Selfyssingar eru að fara langt með að tryggja sæti sitt í 1. deildinni, komnir í 2:0 gegn Gróttu.

89. Víkingar sleppa með skrekkinn! Frábær sókn hjá KA sem endar með því að Hilmar Trausti sendir lága sendingu inn að markteig og Elfar Árni á skot í þverslána.

73. Fjarðabyggð var að minnka muninn á Ísafirði, 2:1.

65. Enn er markalaust í Ólafsvík. Verði þetta niðurstaðan kæmist KA stigi frá Þrótti R. sem á leik til góða við Hauka, en honum var frestað vegna U21-landsleiksins þar sem Þróttur og Haukar eiga fulltrúa í liði Íslands. KA á reyndar líka fulltrúa þar, Ævar Inga Jóhannesson, en hann tekur út leikbann í 1. deildinni í dag.

45. Hálfleikur. Enn er markalaust hjá Víkingi og KA í Ólafsvík, þar sem KA-menn hafa verið hættulegri. Selfoss er yfir gegn Gróttu og BÍ/Bolungarvík 2:0 yfir gegn Fjarðabyggð, eftir að Nigel Quashie bætti við marki.

40. Selfyssingar eru yfir gegn Gróttu í fallslagnum fyrir austan fjall. Sigur í dag færi langt með að tryggja veru Selfoss í deildinni, og senda Seltirninga niður í 2. deild. Munurinn á þeim yrði þá fimm stig og aðeins tvær umferðir eftur. Á Ísafirði sýna heimamenn karakter og eru yfir gegn Fjarðabyggð þrátt fyrir að vera fallnir.

30. Enn bíðum við eftir fyrsta markinu. Í Ólafsvík er þó fjör og heimamenn búnir að bjarga einu sinni á marklínu auk þess sem Elfar Árni Aðalsteinsson komst einn gegn markverði Víkings en náði ekki að nýta sér það.

15. Ekkert hefur enn verið skorað í leikjum dagsins. Heitasti markaskorari deildarinnar, Króatinn Hrvoje Tokic, er á varamannabekknum hjá Víkingum í Ólafsvík en það mun vera vegna flensu.

0. Flautað hefur verið til leiks í leikjunum þremur sem hófust kl. 14.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert