„Í einu orði sagt frábært“

Lars Lagerback var yfirvegaður og stoltur þegar hann ræddi við …
Lars Lagerback var yfirvegaður og stoltur þegar hann ræddi við blaðamenn að leik loknum í kvöld. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Lars Lagerbäck, annar þjálfara íslenska landsliðsins, var eins og vanalega afar rólegur og yfirvegaður þegar hann ræddi við blaðamenn að loknum leik Íslands og Kasakstan á Laugardalsvellinum í kvöld. Niðurstaðan í leiknum var markalaust jafntefli sem þýðir að í fyrsta skipti í sögunni er karlalandslið í knattspyrnu á leið í lokakeppni stórmóts. Lars segist hafa trúað því að liðið gæti náð þessu markmiði og hann telji að leikmenn hafi gert það líka.  

„Þetta er ævintýri líkast. Að baki þessum árangri er mikil vinna frá fjölmörgum aðilum. Leikmenn, starfsfólkið og allir þeir sem við höfum unnið með hafa skilað stórkostlegu vinnuframlagi. Við höfum verið að bæta okkur með hverjum leiknum og þá sérstaklega í því að takast á við stóra leik eins og þennan, þar sem það er mikið undir,“ sagði Lars Lagerbäck á blaðamannafundinum í kvöld. 

„Það er erfitt að taka lokaskrefið sem þarf til þess að ná því markmiði sem þú setur þér. Sérstaklega þegar þau eru háleit, eins og þau markmið sem við settum okkur fyrir þessa undankeppni og þá síðustu. Okkur tókst að ná markmiði okkar í kvöld sem er algerlega frábært,“ sagði Lars Lagerbäck síðan. 

„Það var mikið afrek að komast í lokakeppni stórmóta með Svíþjóð og þetta er mjög sérstakt líka. Þetta hefur mikla þýðingu fyrir mig. Þú finnur stoltið og það er frábært að finna jákvætt viðmót stuðningsmann og allra þeirra sem láta sig liðið varða. Það er frábær tilfinning að finna fyrir því,“ sagði Lars Lagerbäck enn fremur. 

„Ég myndi ekki ganga svo langt að kalla mig hetju. Slíkt á frekar við um menn eins og Martin Luther King og Nelson Mandela. En við höfum staðið okkur feykilega vel og unnið mikið afrek að mínu mati,“ sagði Lars Lagerbäck aðspurður um hvort hann teldi sig þjóðhetju.

„Ég held að smæð þjóðarinnar vinni með okkur. Það er auðveldara að stjórna því hvernig hlutir eru unnir hér og þjóðin fylkir sér að baki því sem þú ert að gera. Við förum í alla leiki til þess að vinna og erum ekki smeykir við að mæta stóru þjóðunum í lokakeppninni. Við höfum unnið stórar þjóðir í síðustu tveimur undankeppnum og getum alveg haldið áfram að gera það,“ sagði Lars Lagerbäck að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert