„Stærsti sjónvarpsviðburður sem við höfum upplifað“

Íslenska landsliðið fagnar í gærkvöldi.
Íslenska landsliðið fagnar í gærkvöldi. mbl.is/Golli

Allir leikir íslenska landsliðsins í Evrópukeppninni í knattspyrnu í Frakklandi næsta sumar verða í opinni dagskrá á miðlum Símans sem á sýningarréttinn að keppninni, að sögn Magnúsar Ragnarssonar, framkvæmdastjóra miðla og markaða Símans. Hann reiknar með að mótið verði stærsti sjónvarpsviðburður sem Íslendingar hafi upplifað.

Íslenska karlalandsliðið tryggði sér sæti á EM í Frakklandi með jafntefli gegn Kasökum á Laugardalsvelli í gærkvöldi. Síminn á sýningarréttinn á lokakeppninni sem fer fram næsta sumar og segir Magnús að sú staðreynd að Ísland verði með lið á mótinu hleypi enn meiri metnað í mannskapinn að standa vel að útsendingu þess.

„Það verður ennþá meiri metnaður settur í þetta af öllum sem að þessu koma. Við skulum vona að það fari ekki allir til Frakklands og að það verði einhver eftir til að horfa!“ segir Magnús og hlær.

Býst ekki við sálu á götunum þegar leikirnir verða í gangi

Miðlar Símans munu senda sitt fólk út til Frakklands á meðan á mótinu stendur en af þeim sökum verður ekki hægt að ljúka undirbúningnum fyrr en 12. desember þegar dregið verður í riðla og fyrir liggur hvar Ísland mun spila. Allir leikirnir verða í opinni dagskrá, að sögn Magnúsar.

„Þetta er þess lags að við viljum alls ekki læsa þessa leiki sem Ísland spilar inni í áskriftasjónvarpi,“ segir hann.

Ef Íslandi auðnast að komast upp úr riðlinum verða leikir þess í útsláttarkeppninni einnig í opinni dagskrá. „Við munum fylgja Íslandi til síðasta leiks í opinni dagskrá,“ segir Magnús.

Síminn á SkjáEinn og SkjáSport og hefur prófað sig áfram með að selja einstaka dagskrárliði eða viðburði (e. pay-per-view). Magnús segir að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvernig mótið verður selt áhorfendum. Hugsanlega geti þeir keypt allt mótið í áskrift eða einstaka leiki.

„Ég held að þetta hljóti að verða einhver stærsti sjónvarpsviðburður sem við höfum upplifað, þar með talið áramótaskaup og annað. Ég reikna ekki með að það verði sála á götunum þegar þessir leikir verða sýndir,“ segir framkvæmdastjórinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert