Dapurt frá fyrstu mínútu

Haukur Ingi Guðnason og Jóhann Birnir Guðmundsson
Haukur Ingi Guðnason og Jóhann Birnir Guðmundsson Hilmar Bragi

„Maður var að vonast til þess að menn gætu reynt að njóta þess að vera pressulausir, leggja sig fram og spila sem lið en sú varð ekki raunin,“ sagði Haukur Ingi Guðnason, þjálfari Keflavíkur, eftir 4:0-tap sinna mann fyrir ÍA í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í dag.

Keflvíkingar voru þegar fallnir en Skagamenn tryggðu sæti sitt með sigrinum. Haukur segir ef til vill hafa verið erfitt að gíra menn upp í leikinn enda liðið þegar fallið.

„Það er erfitt að segja. Maður hefur bæði séð lið hrökkva í gang eftir að hafa fallið en líka þar sem lið fara inn í skelina enn frekar. Það var raunin hjá okkur en ég var að vonast eftir því fyrrnefnda. Ég vonaði að menn gætu reynt að njóta þess að spila fótbolta. En þetta var ansi dapurt og eiginlega frá fyrstu mínútu,“ sagði Haukur en hrósaði um leið Skagamönnum sem hann sagði greinilega hafa ætla að selja sig dýrt.

En hvað um framhaldið hjá Keflavík í síðustu tveimur leikjunum?

„Við töluðum um að prófa leikmenn, skoða framtíðina og leyfa ungum leikmönnum að fá séns og það ætlum við að gera í þessum síðustu leikjum. Auðvitað ætlum við að reyna að vinna leiki, við ætlum ekki að gefa leikina en ætlum að prófa okkur áfram líka,“ sagði Haukur, sem tók við liðinu ásamt Jóhanni Birni Guðmundssyni á miðju sumri. Ætla þeir að fylgja liðinu í 1. deild?

„Við ætlum að skoða það, enda væri gaman að prófa að geta stýrt liði frá upphafi og haft meiri tíma til að setja sín fingraför á það. En við verðum að skoða það, hvort sé áhugi hjá Keflavík og geta hjá okkur. En það kemur í ljós,“ sagði Haukur Ingi Guðnason í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert