Skagamenn tryggðu sæti sitt með stæl

Úr leik ÍA og Keflavíkur í dag.
Úr leik ÍA og Keflavíkur í dag. Mynd/Hilmar Bragi Bárðarson.

Nýliðar Skagamanna tryggðu í dag veru sína í Pepsi-deild karla í knattspyrnu að ári, og það með stæl, eftir gríðarlega öruggan 4:0-sigur á föllnum Keflvíkingum þegar liðin mættust í roki og rigningu suður með sjó.

Leikurinn byrjaði rólega í slagveðrinu í Keflavík, en eftir stundarfjórðungs leik var ísinn brotinn. Markahrókurinn Garðar Gunnlaugsson skoraði þá eftir efnilega sókn Skagamanna, Hallur Flosason fékk boltann frá vinstri, sendi fyrir í fyrsta þar sem Garðar beið í teignum og skoraði. 1:0 fyrir ÍA.

Eins og svo oft áður í sumar virtist sem Keflvíkingar hengdu bara haus við mótlætið og ekki boðaði það gott fyrir þá. Á 24. mínútu kom annað mark Skagamanna, en bakvörðurinn Þórður Þorsteinn Þórðarson lét þá vaða rétt utan teigs eftir að hafa fengið boltann í kjölfar hornspyrnu. Staðan 2:0.

Þegar hálftími var liðinn af leiknum kom svo þriðja markið, en það skoraði Hallur Flosason með skalla eftir sendingu frá vinstri kanti. Staðan 3:0 og þannig var hún í hálfleik þar sem Skagamenn voru gjörsamlega að ganga frá heimamönnum.

Keflvíkingar mega eiga það að þeir mættu grimmari til leiks eftir hlé, en það stóð ekki lengi. Strax á 50. mínútu skoruðu Skagamenn fjórða markið, þegar Ásgeir Marteinsson skallaði boltann innfyrir á Garðar sem komst í gegn og renndi boltanum snyrtilega í netið, 4:0.

Úrslitin voru löngu ráðin en Skagamenn hefðu hæglega getað bætt við fleiri mörkum. Keflvíkingar reyndu að setja mark sitt á leikinn þegar leið á, en varð lítt ágengt. Svo varð að mörkin voru ekki fleiri, lokatölur 4:0 fyrir ÍA sem eru með 23 stig þegar tvær umferðir eru eftir og öruggir með sæti sitt í deildinni. Keflvíkingar eru á botninum, fallnir með sjö stig.

Fylgst var með gangi mála í beinni lýsingu hér á mbl.is, en viðtöl koma hér á vefinn síðar í dag. Þá verður fjallað ítarlega um leikinn sem og alla hina í íþróttablaði Morgunblaðsins á morgun.

Keflavík 0:4 ÍA opna loka
90. mín. Stefan Alexander Ljubicic (Keflavík) á skot framhjá Kraftur í stráknum, sem er að spila sinn fyrsta leik í efstu deild hér í dag. Sextán ára gamall.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert