Emil besti leikmaður Íslandsmótsins

Emil Pálsson með verðlaunin í kvöld.
Emil Pálsson með verðlaunin í kvöld. Ljósmynd/KSÍ

Emil Pálsson miðjumaður úr FH er besti leikmaður Pepsi-deildar karla í knattspyrnu árið 2015 en hann varð hlutskarpastur í hinu árlega kjöri leikmannanna sjálfa sem greiddu atkvæði fyrir lokaumferð Íslandsmótsins sem var leikin í dag.

Í stað þess að afhenda viðurkenninguna við sérstaka athöfn síðar í mánuðinum heimsóttu fulltrúar Knattspyrnusambands Íslands FH-inga á lokahóf þeirra í kvöld og afhentu Emil verðlaunin þar frammi fyrir eigin félagsmönnum.

Emil, sem er 22 ára gamall miðjumaður, var kannski ekki líklegastur allra til að vinna þennan titil í upphafi móts þegar FH-ingar lánuðu hann til Fjölnis. Hann lék með Grafarvogsliðinu í fyrstu 10 umferðunum og tók þátt í góðu gengi þess í deildinni.

Hann var síðan kallaður aftur yfir í FH á miðju sumri og var í stóru hlutverki há FH í síðustu 12 umferðum deildarinnar og stóð uppi sem Íslandsmeistari með liðinu. Emil skoraði sex mörk fyrir FH í þessum tólf leikjum.

Emil á að baki 87 leiki í efstu deild, 77 þeirra með FH, og hefur skorað 14 mörk, þrettán þeirra fyrir Hafnarfjarðarliðið. Hann á að baki samtals 21 leik með öllum yngri landsliðum Íslands, sex þeirra með 21-árs landsliðinu.

Emil Pálsson fagnar marki ásamt Jonathan Hendrickx og Steven Lennon
Emil Pálsson fagnar marki ásamt Jonathan Hendrickx og Steven Lennon mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert