Tímamótamark hjá Óskari

Óskar Örn Hauksson á fullri ferð með KR.
Óskar Örn Hauksson á fullri ferð með KR. mbl.is/Eva Björk

Óskar Örn Hauksson skoraði tímamótamark þegar hann kom KR-ingum í 4:2 í leik þeirra gegn Víkingum úr Reykjavík í lokaumferð Pepsi-deildar karla í knattspyrnu í Vesturbænum í gær.

Þetta var annað mark Óskars í leiknum og hans áttunda í deildinni á árinu, og um leið 50. markið sem hann skorar á ferlinum í efstu deild. Hann varð markahæsti leikmaður KR í deildinni á tímabilinu 2015. Þá var hann líka markahæsti leikmaður liðsins í bikarkeppninni á árinu með 4 mörk.

Af þessum 50 mörkum í deildinni hefur Óskar gert 38 fyrir KR og hann er nú kominn í 7.-8. sæti yfir markahæstu leikmenn Vesturbæjarfélagsins í efstu deild frá upphafi, jafn Kjartani Henry Finnbogasyni. Hin 12 mörkin skoraði hann fyrir Grindavík.

Fyrir ofan þá á listanum eru Ellert B. Schram (62), Björgólfur Takefusa (50), Þórólfur Beck (49), Gunnar Felixson (44), Guðmundur Benediktsson (43) og Einar Þór Daníelsson (42).

Þá er Óskar nú í lok tímabils orðinn fjórði leikjahæsti KR-ingurinn í deildinni frá upphafi með 169 leiki fyrir félagið en hann á þar nú samtals 221 leik að baki með KR og Grindavík. 

Einu KR-ingarnir sem hafa spilað fleiri leiki í deildinni eru Þormóður Egilsson (239), Kristján Finnbogason (229) og Einar Þór Daníelsson (183).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert