Gylfi stríddi liðsfélögunum

Gylfi Þór Sigurðsson faðmar Kolbein Sigþórsson eftir að sætið á …
Gylfi Þór Sigurðsson faðmar Kolbein Sigþórsson eftir að sætið á EM var í höfn, með jafnteflinu við Kasakstan fyrir mánuði. mbl.is/Golli

Gylfi Þór Sigurðsson viðurkennir að hafa leyft sér að skjóta létt á velska liðsfélaga sína í Swansea eftir að Ísland vann sér í fyrsta sinn sæti í lokakeppni EM karla í knattspyrnu.

Ísland mætir Lettlandi á Laugardalsvelli á laugardag, og Tyrklandi í Konya þremur dögum síðar, í síðustu umferðum undankeppninnar. Liðið er hins vegar þegar öruggt um að spila á EM en aðeins England, Tékkland, Austurríki og gestgjafar Frakklands geta státað sig af því sama.

„Þetta var ótrúlegt hjá okkur. Þetta er í fyrsta sinn sem við komumst í lokakeppni stórmóts og við erum minnsta þjóðin sem náð hefur á EM, svo þetta var alveg einstakt, sagði Gylfi við Wales Online.

Ætlum í 16-liða úrslitin

Núna erum við öruggir um EM-sætið og viljum enda á toppi riðilsins. Síðan viljum við fá sem heppilegastan riðil á EM, komast í 16-liða úrslitin og skoða stöðuna eftir það, sagði Gylfi. Velska blaðið hafði áhuga á að vita hvað Gylfa þætti um stöðu Wales, sem er á barmi þess að tryggja sig inn á EM.

Ég er búinn að fylgjast með Wales og liðið er nánast komið áfram. Ég stríddi Ash [Ashley Williams] og Tayls [Neil Taylor] aðeins á því að við skyldum ná þessu á undan, og þeir eiga enn verk fyrir höndum, en ég er viss um að þeir verða samferða okkur á EM. Það er frábært fyrir þá að vera í þessari stöðu, rétt eins og fyrir okkur, og þeir geta klárað dæmið, sagði Gylfi, sem veit hvað félagar sínir eiga fyrir höndum þegar það tekst:

Fæ gæsahúð við að hugsa um þetta

Þetta er ótrúleg upplifun og ég er viss um að velsku strákarnir munu njóta þess. Þetta er alveg einstakt og ég held að enginn gleymi þessu. Fagnaðarlætin voru ótrúleg og ég fæ gæsahúð við að rifja þetta upp. Þetta er búið að vera ótrúlegt ferðalag því þegar maður elst upp á Íslandi hugsar maður aldrei með sér að maður muni spila í lokakeppni stórmóts,“ sagði Gylfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert