Kolbeinn of seinn í eigin kveðjuathöfn

Kolbeinn Sigþórsson tekur Eið Smára á hestbak eftir að EM-sætið …
Kolbeinn Sigþórsson tekur Eið Smára á hestbak eftir að EM-sætið var í höfn í síðasta mánuði. mbl.is/Golli

Forráðamenn Ajax hugðust halda sérstaka kveðjuathöfn fyrir Kolbein Sigþórsson í hálfleik í stórleiknum við PSV á Amsterdam Arena í gær.

Kolbeinn lék í fjögur ár með Ajax og varð þrívegis hollenskur meistari með liðinu. Hann flutti sig hins vegar um set í sumar og gekk í raðir Nantes í Frakklandi. Lítið varð hins vegar úr kveðjuathöfninni vegna þess að flugi Kolbeins til Hollands seinkaði um klukkustund vegna þoku:

„Ég gat bara séð síðustu 20 mínúturnar af leiknum,“ sagði Kolbeinn, sem þakkaði öllum hjá Ajax fyrir fjögur frábær ár. Hann kíkti inn í búningsklefa til gömlu liðsfélaganna eftir leik, en þar var lítil stemning eftir 2:1-tap.

Kolbeinn getur gert nokkrum af gömlu liðsfélögum sínum stóran greiða eftir viku þegar Ísland mætir Tyrklandi í lokaumferð undankeppni EM. Holland er nefnilega í harðri baráttu við Tyrkland um 3. sæti riðilsins, sem gefur þátttökurétt í umspili.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert