Ólafur var hætt kominn - náði ekki andanum

Landsliðsmaðurinn Ólafur Ingi Skúlason var hætt kominn á hóteli landsliðsins í morgun en hluti af morgunverðinum sem hann innbyrti festist í öndunarvegi hans og þurfi sjúkraþjálfarinn Stefán Stefánsson að beita heimlich aðferðinni til að ná hlutnum.

„Það hrökk eitthvað að morgunmatnum ofan í mig sem festist í öndunarveginum og ég náði hreinlega ekki andanum. Ég á Stebba sjúkraþjálfara að þakka að ég sé á lífi. Takk Stebbi,“ sagði Ólafur Ingi við mbl.is fyrir æfingu landsliðsins í morgun.

Spurður út í komandi verkefni, leikina á móti Lettum og Tyrkjum sagði Ólafur Ingi;

„Við erum einbeittir á þetta verkefni og okkar markmið eru að vinna riðilinn sem gæti reynst mikilvægt upp á að ná þriðja sætinu í riðlinum,“ sagði Ólafur sem leikur með tyrkneska liðinu Genclerbirligi.

„Það verður gríðarleg stemning í leiknum á móti Tyrkjunum. Þeir eru í baráttu um að ná þriðja sætinu og það gerðar miklar kröfur til tyrkneska landsliðsins frá fólkinu,“ sagði Ólafur en rætt er við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert