Stjarnan þarf að sækja í Rússlandi

Stjarnan er í erfiðri stöðu fyrir seinni leik 32ja liða úrslita Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu eftir tap á heimavelli fyrir rússneska liðinu Zvezda 2005 í Garðabæ í kvöld, 3:1. Liðin mætast í síðari leiknum ytra eftir rúma viku.

Rússneska liðið byrjaði leikinn af miklum krafti og komust yfir strax á fimmtu mínútu leiksins. Sandra Sigurðardóttir misreiknaði þá sendingu inn í teiginn frá vinstri svo eftirleikurinn var auðveldur fyrir Olha Boichenko sem skallaði boltann í tómt markið.

Stjarnan náði hins vegar áttum eftir markið og Francielle átti meðal annars skot yfir úr algjöru dauðafæri skömmu eftir markið. Heimakonum virtist vera að vaxa ásmegin, en þá kom annað áfall. Á þrettándu mínútu kom kom annað mark Zvezda, nánast upp úr engu. Daria Apanashchenko fékk þá boltann á miðjum vellinum eftir innkast, sótti að marki Stjörnunnar og lét vaða utan teigs. Sandra réði ekki við boltann og í netið fór hann. Staðan 0:2 og þrettán mínútur liðnar.

Stjarnan lagði hins vegar ekki árar í bát og reyndi að sækja. Það bar ávöxt á 28. mínútu þegar Harpa Þorsteinsdóttir átti skot af löngu færi sem Iryna Zvarich varði vel, en Rúna Sif Stefánsdóttir kom hins vegar á ferðinni og skilaði frákastinu upp í þaknetið. Staðan 1:2.

Aðeins fjórum mínutum síðar dundi hins vegar ógæfan yfir á ný. Eftir aukaspyrnu hentu Stjörnukonur sér fyrir skot José Nahi, en ekki vildi betur til en svo að boltinn barst þess í stað á fjærstöngina þar sem Olesya Kurochkina átti ekki í vandræðum með að skora. Ekki voru mörkin fleiri fyrir hlé, staðan 1:3 í hálfleik.

Það var grimmd í Stjörnunni í upphafi síðari hálfleik og heimakonur ætluðu sér greinilega að laga stöðuna fyrir síðari leikinn ytra. Harpa Þorsteinsdóttir fékk fínt færi um miðbik síðari hálfleiksins, en skalli hennar af markteig var glæsilega varinn.

Rússneska liðið var ekkert á því að gefa færi á sér og hafði nokkuð góða stjórn á leiknum. Framherjinn José Nahi var tekin af velli á 64. mínútu, en hún skoraði fernu í leiknum í fyrra. Í hennar stað kom Ekaterina Pantyukhina, og átti hún fast skot í stöng skömmu eftir að hafa komið inn og var því fljót að minna á sig.

Þegar leið á seinni hálfleikinn hefðu margir búist við því að draga færi af Stjörnuliðinu, en Iryna Zvarich reyndist þeim erfið í marki rússneska liðsins. Ekki voru fleiri mörk skoruð, lokatölur 3:1 fyrir Zvezda og því ljóst að Stjarnan þarf að sækja til sigurs í Rússlandi eftir rúma viku, en síðari leikurinn fer fram fimmtudaginn 15. október.

Fylgst var með gangi mála í beinni textalýsingu hér á mbl.is, en nánar verður fjallað um leikinn í Morgunblaðinu á morgun. Viðtöl birtast hér á vefnum síðar í kvöld.

Stjarnan 1:3 Zvezda 2005 opna loka
90. mín. Það verða að minnsta kosti þrjár mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert