„Þetta er svo mikill viðbjóður“

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir.
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir. Eva Björk Ægisdóttir

„Mér finnst við miklu betra lið en þetta rússneska lið. Öftustu fjórar hjá þeim eru lélegar, bara mjög lélegar, og við eigum að nýta okkur það,“ sagði Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, einbeitt í samtali við mbl.is eftir 3:1-tap liðsins fyrir Zvezda 2005 frá Rússlandi í fyrri leik liðanna í 32ja liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu í kvöld.

 „Mín upplifun eftir þennan leik er hvað þetta er grátlegt. Það er hrikalega svekkjandi að tapa 3:1 fyrir þessu liði og ég veit ekki hvort það sé bara ég, en mér fannst við betri í leiknum. Við vorum algjörir klaufar að fá á okkur mark eftir fjórar mínútur og minnti á leikinn í fyrra. Þetta er svo mikill viðbjóður,“ sagði Ásgerður, en ekki vantaði Stjörnunni færin í leiknum.

„Við fengum heldur betur færi og létum þennan markmann líta út fyrir að vera í heimsklassa, sem hún er alls ekki heldur slær alla bolta og heldur ekki neinu. Við þurfum að vera meiri töffarar upp við markið og nýta þessi færi sem við erum að fá,“ sagði Ásgerður, en hvað gerðist í upphafi leiks?

„Við virkuðum eins og við vorum stressaðar og taugatrektar, en það er fáránlegt að vera það með alla þessa landsliðsmenn og reynda leikmenn. Við erum að spila í þriðja sinn í Evrópu svo við getum ekki skýlt okkur á bak við taugatitring,“ sagði Ásgerður.

Þetta er ógeðslegt ferðalag

Liðin mætast í síðari leiknum í Rússlandi eftir rúma viku og Ásgerður segir aðeins eitt koma til greina eftir það langa og stranga ferðalag.

„Þetta er þriðja sinn sem við förum þangað og þetta er ógeðslegt ferðalag. Maður nennir ekki að vera að fara út og ekki ætla að koma heim með annan leik í nóvember. við ætlum okkur út að vinna, við getum það alveg og sýndum það í dag. Við þurfum bara að treysta meira á okkur sjálfar og pressa vel á þær,“ sagði Ásgerður, en hún segir kostur að þekkja aðstæður frá viðureign liðanna í fyrra. Sérstaklega völlinn hjá þeim sem er ekki sérstakur.

„Gervigrasið hjá þeim er steypt og er eins og mold, þetta er viðbjóðslegt og bara eins og var fyrir utan Kópavogsvöll fyrir tíu, tuttugu árum. Það fer smá illa með okkur en það eru 90 mínútur eftir af þessu einvígi og við ætlum okkur áfram, það er engin spurning,“ sagði Ásgerður Stefanía einbeitt í samtali við mbl.is í kvöld.

Rússarnir fagna í Garðabænum í kvöld.
Rússarnir fagna í Garðabænum í kvöld. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert