„Þetta þótti Ítölunum mjög merkilegt“

Emil Hallfreðsson leikmaður ítalska liðsins Hellas Verona er aftur kominn í íslenska landsliðiðið fyrir leikina á móti Lettum og Tyrkjum en Emil var fjarri góðu gamni í leikjunum á móti Hollandi og Kasakstan í síðasta mánuði vegna meiðsla.

„Það var hundleiðinlegt að vera heima á Ítalíu og horfa á strákana taka þetta eins og undarlega og það hljómar. En á móti var maður gríðarlega ánægður að EM-sætið var í höfn. Það er gott að vera búinn að ná sér og kominn aftur á skrið. Það væri leiðinlegt að ætla að fara enda undankeppnina með því að slaka eitthvað á. Við viljum vinna riðilinn með stæl,“ sagði Emil við mbl.is.

Emil segir að það hafi vakið verðskuldaða athygli á Ítalíu þegar Ísland tryggði sér farseðilinn á EM í Frakklandi.

„Þetta hafi mikla athygli. Ég var úti á Ítalíu þegar þetta gerðist og ég var gripinn í mörg viðtöl og spurður út í þennan frábæra árangur. Þetta þótti Ítölunum mjög merkilegt. Ég væri til í að fá Ítalina með á EM, lenda með þeim í riðli og vinna þá þar,“ sagði Emil en rætt er við hann í meðfylgjandi myndskeiði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert