Viljum komast á kortið

Ásgerður Stefanía Baldursdóttir.
Ásgerður Stefanía Baldursdóttir. mbl.is/Eva Björk Ægisdóttir

„Þetta er ekki bara leikur fyrir Stjörnuna, heldur kvennaknattspyrnuna á Íslandi. Við þurfum að koma okkur á kortið,“ sagði Ásgerður Stefanía Baldursdóttir, fyrirliði Stjörnunnar, fyrir leikinn við Zvezda frá Rússlandi í kvöld í 32-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í knattspyrnu.

Flautað er til leiks kl. 19 í Garðabæ, en liðin mætast svo í Rússlandi 15. október. Þetta er annað árið í röð sem þessi tvö lið mætast en í fyrra vann Zvezda 5:2-sigur í Garðabæ, og einvígið samtals 8:3. Það er mikill hugur í bikarmeisturum Stjörnunnar að gera betur nú, og gera Ísland betur gildandi í Evrópu:

„Það er langt síðan íslenskt lið lék í 16 liða úrslitum, við höfum yfirleitt dottið út með miklum mun í 32 liða úrslitum og átt lítinn séns í þessi lið, þannig að það mæðir mikið á okkur í þessari rimmu,“ sagði Ásgerður. Hún býst við svipuðu liði Zvezda og í fyrra.

„Þetta var grátlegur endir á þessu í heimaleiknum í fyrra, þar sem við gátum jafnað í lokin en fengum í staðinn tvö mörk á okkur í uppbótartíma. Við verðum að halda haus allan tímann. Það má ekki gleyma framherjum þeirra í eina sekúndu,“ sagði Ásgerður.

„Við ætlum að halda markinu hreinu, verjast aðeins aftar en við gerum venjulega. Við þurfum að minnka svæðið sem framherjar þeirra geta hlaupið í, því þeir mega ekki fá neitt pláss. Svo beitum við skyndisóknum. Þetta er allt öðruvísi verkefni en leikirnir í Pepsi-deildinni, en við fengum ágætis æfingu úti á Kýpur og komum okkur í gegnum það. Við þekkjum líka Rússana vel, það eru ekki miklar breytingar á þeirra liði,“ bætti hún við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert