Eiður áfram í Kína?

Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

„Ég reikna alltaf með að spila. Ég er í mjög góðu standi og hef haft virkilega gaman síðasta mánuðinn úti í Kína. Ég hef spilað alla leiki og hef fengið að vera í friði,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen við Morgunblaðið þegar hann var inntur eftir hugsanlegu hlutverki sínu í leikjunum gegn Lettum og Tyrkjum sem verða síðustu leikir íslenska landsliðsins í undankeppni Evrópumótsins.

Eins og alþjóð er kunnugt um tryggði Ísland sér sæti í úrslitakeppni EM í Frakklandi með markalausu jafntefli á móti Kasakstan í síðasta mánuði og draumur Eiðs um að spila með landsliðinu á stórmóti rættist þar með að því gefnu að hann verði heill og klár og verði valinn í lokahópinn.

„Maður skynjar að spennan er ekki jafnmikil núna í hópnum þegar EM-sætið er í höfn og vonandi kemur það ekki aftan að okkur. Það væri vitleysa og vanvirðing af okkar hálfu ef við gæfum ekki allt í þessa tvo síðustu leiki og við munum gera allt sem við getum til að enda í toppsæti riðilsins,“ sagði Eiður Smári við Morgunblaðið, en hann lék sinn 80. landsleik þegar Íslendingar unnu glæsilegan sigur á Hollendingum á Amsterdam-Arena í síðasta mánuði.

Ekki liggur enn ljóst fyrir með framtíð Eiðs Smára hjá kínverska liðinu Shijiazhuang Ever Bright sem hann gekk til liðs við í sumar.

„Það var ákveðið að við myndum setjast niður eftir tímabilið í Kína. Auðvitað spáir maður í framtíðina og vill reyna að hafa hana klára sem fyrst svo maður geti spilað sem flesta leiki og verið í góðu standi. Ég hef ákveðið að leyfa tímabilinu að klárast og sýna liði mínu þá virðingu að ræða fyrst við það áður en ég skoða eitthvað annað, ef liðið vill ræða áframhald á samstarfi okkar. Ég get alveg hugsað mér að vera áfram í Kína. “

Sjá allt viðtalið við Eið í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert