„Gott að fá kalda vatnsgusu í andlitið“

Gylfi mundar skotfótinn og nokkrum andartökum síðar var hann búinn …
Gylfi mundar skotfótinn og nokkrum andartökum síðar var hann búinn að koma Íslandi í 2:0. mbl.is/Golli

Landsliðsmaðurinn Gylfi Þór Sigurðsson var frekar svekktur eftir 2:2 jafntefli gegn Lettum í undankeppni EM í dag. Ísland var 2:0 yfir að loknum fyrri hálfleik en Lettar voru sprækir í síðari hálfleik og náðu að jafna leikinn.

Gylfi telur að íslenska liðið hafi verið of sókndjarft í stöðunni 2:0. „Við vorum allt of opnir. Ég veit ekki hvort við vorum að reyna að skora nógu mörg mörk fyrir þjóðina og alla sem komu á völlinn eða hvað það var. Í stöðunni 2:0 áttum við bara að vera þéttir varnarlega og verja markið. Við hleyptum þeim inn í leikinn þegar þeir minnkuðu muninn, lærðum ekki af því, héldum áfram að sækja og vorum of opnir,“ sagði Gylfi.

Hann sagði að leikurinn hefði á köflum líkst körfubolta frekar en knattspyrnu. Bæði lið sóttu og fáir virtust hugsa um að verjast.  „Eins og ég sagði þá gekk okkur mjög vel að sækja, gott spil og mikil hreyfing. Þetta var svolítið eins og körfuboltaleikur þegar bæði lið sóttu. Munurinn á hálfleikjum var að þeir nýttu færin sín í síðari hálfleik.

Gylfi vill ekki meina að leikmenn hafi verið kærulausir í stöðunni 2:0 gegn liði sem hefur ekki unnið leik í þessari undankeppni. „Nei, það held ég ekki. Það var alveg sama hugarfar í báðum hálfleikjum. Kannski vorum við að hugsa of mikið um að skora mikið af mörkum og skemmta þeim sem voru komnir á völlinn. Ef við eigum að taka eitthvað jákvætt úr þessu þá er gott að fá kalda vatnsgusu í andlitið.“

Gylfi hefur skorað sex mörk í undankeppninni, sem verður að teljast frábær árangur hjá miðjumanni. Hann skoraði annað mark Íslands í dag en það var snoturt mark. „Það var gott spil í aðdragandanum. Hannes vippaði yfir einn Lettann og síðan rúllaði boltinn aðeins á milli manna áður en hann kom til mín. Ég var með boltann í einhverja metra og það er alltaf gaman að sjá hann í netinu.“ 

Fyrirliði Íslands, Aron Einar Gunnarsson, tók út leikbann og var því ekki með í dag. Aðspurður sagði Gylfi að auðvitað hafi liðið líklega saknað Arons en það hafi ekki verið ástæðan fyrir jafnteflinu í dag. „Við hefðum bara þurft fleiri varnarsinnaða leikmenn. Við vorum allt of mikið að fara fram, hvort sem það voru miðjumenn, bakverðir eða kantmenn, við vorum alltof sókndjarfir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert